154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

Störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa notað þetta ræðupúlt í dag til þess að tala um það hræðilega bakslag sem hefur orðið í umræðu um hinsegin fólk hér á Íslandi. Ég ætla að fagna því sérstaklega að forsætisráðherra hafi stigið fram í gær og sé alveg skýr með það að hún ætlar að gera það sem hún getur í krafti síns embættis sem forsætisráðherra til að vekja athygli á hatursorðræðu og vinna gegn henni og ég vil brýna okkur þingmenn til að gera slíkt hið sama. Þetta er gjörsamlega óþolandi ástand sem við erum að sjá í þjóðfélaginu núna.

Frú forseti. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur lagt áherslu á jafnrétti og kvenfrelsi og eitt af skýrustu málunum þar sem við höfum séð eru breytingar á þungunarrofslöggjöfinni sem er framsækin og styður mjög við sjálfráðarétt kvenna til eigin líkama. Danir eru nú að horfa til þess að gera breytingar á sinni löggjöf en virðast ekki treysta sér til að ganga jafn langt og við en ég brýni þau og hvet þau til góðra verka þar.

Frú forseti. Mig langar að nota þessar síðustu sekúndur vegna þess að við verðum að halda áfram að horfa á jafnréttismálin og stöðu kynjanna og ekki síst kvenna í samfélaginu. Það var hræðilegt að fá og sjá skýrslu Vörðu, rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins, í gær sem sýnir ömurlega stöðu þeirra sem vinna við ræstingar, sem eru konur að mjög miklu leyti. Ég hef því miður ekki tíma til að fara frekar inn í þá umræðu hérna (Forseti hringir.) en mun gera það síðar og þetta er eitthvað sem við hér á þingi verðum að hafa augun á. (Forseti hringir.) Það er óþolandi að það sé verið að fara svona með hluta af fólki á okkar vinnumarkaði.