154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

Störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Frú forseti. Ekkert lát er á straumi hælisleitenda til landsins. Fjölmennasti hópurinn er frá Venesúela, enda auglýsa ferðaskrifstofur þar í landi íslenska velferðarkerfið sérstaklega. Álagið á sveitarfélögin á suðvesturhorninu er mikið, samráðsleysi ríkir af hálfu hins opinbera við sveitarfélögin, húsnæði er á þrotum og viðhorf almennings orðið neikvætt. Kærunefnd útlendingamála ber ábyrgð á því ófremdarástandi sem upp er komið í flóttamannamálum á Íslandi. Nefndin er sjálfstæð í störfum sínum. Úrskurðir nefndarinnar eru endanlegir gagnvart stjórnvöldum. Hvorki ríkisstjórn né Alþingi segja nefndinni fyrir verkum og stjórnvöld geta ekki kært niðurstöðu hennar til dómstóla.

Þetta er valdamikil sjö manna nefnd. Rekstur hennar kostar 273 milljónir á ári. Nefndin ákvað að allir þeir sem koma frá Venesúela skuli fá fjögurra ára vernd og þar með sömu réttindi og Íslendingar í velferðarkerfinu. Þetta vita þeir sem kaupa sér flugfar til Íslands frá Venesúela. Þetta er meginástæða þess að fjölmennasti hópurinn sem sækir um hæli á Íslandi er frá Venesúela. Á sama tíma veitir ekkert annað ríki á Norðurlöndum umsækjendum frá Venesúela fjögurra ára vernd og umsóknir eru fáar.

Útlendingastofnun hefur undanfarið neitað umsækjendum frá Venesúela um vernd hér á landi. Málin bíða nú niðurstöðu kærunefndarinnar. Staðfesti nefndin niðurstöðuna mun straumurinn til landsins minnka verulega og staða þeirra sem fyrir eru í landinu breytast. Ekkert er hins vegar að frétta frá kærunefndinni. Hún er búin að vera að hugsa málin í sex mánuði. Þeir vinna greinilega á hraða snigilsins á þeim bænum. Á meðan heldur straumurinn til landsins frá Venesúela áfram með tilheyrandi álagi fyrir sveitarfélögin og kostnaði fyrir skattgreiðendur. Nefndin gæti stytt þennan tíma með því að lesa skýrslu norsku kærunefndarinnar um stöðu mála í Venesúela. Norðmenn sendu sendinefnd til Venesúela til að kynna sér aðstæður og niðurstaðan er skýr: Ekki er ástæða fyrir fjögurra ára vernd.

Frú forseti. Það er brýnt að löggjafinn grípi inn í þessa endaleysu og stokki upp kærunefnd útlendingamála.