154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

Störf þingsins.

[10:57]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Frú forseti. Ég vil nýta þetta tækifæri hér og ræða aðeins verkefnið Römpum upp Ísland og tengja það við það viðfangsefni sem við erum að kljást við í dag, þ.e. orkuskiptin. Römpum upp Ísland er, eins og flestir, held ég, þekkja, mjög þarft og gott verkefni sem felst í því að rampa upp staði, við hús, sérstaklega þar sem aðgengi fyrir fatlað fólk og aðra var ekki nægilega gott þannig að fatlaðir geti notið með vinum og vandamönnum.

Þá kem ég að orkuskiptunum, vegna þess að mér varð hugsað til þess að nýlega sá ég á samfélagsmiðlum stórt fyrirtæki í íslensku samfélagi hreykja sér af því að það væri búið að setja upp rafhleðslustöðvar fyrir bíla og starfsmenn fyrirtækisins. Það er ekki af illum hug, ég held að það sé frekar hugsunarleysi, sem aðgengi að þessum rafhleðslustöðvum var ekki nægilega gott fyrir fatlað fólk. Þetta er vont og þetta er vont fyrir hjartað vegna þess að við megum aldrei fara á þann stað eftir nokkur ár að við þurfum sambærilegt verkefni í þessum málum og við erum með í Römpum upp Ísland. Það gæti verið Römpum upp rafhleðslustöðvar. Við verðum að tryggja það og ég treysti á hæstv. ráðherra, umhverfisráðherra og innviðaráðherra, að þeir vinni saman að því að móta einhvers konar verklagsreglur um það hvernig skuli setja upp slíkar stöðvar og tryggja þannig aðgengi allra að slíkum stöðvum.