154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

Störf þingsins.

[11:04]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ólöglegur samningur Samkeppniseftirlitsins og matvælaráðuneytisins hefur verið tekinn upp í þinginu tvisvar þessa vikuna. Nú hefur bæst við í þetta furðuverk allt saman viðtal við Svein Agnarsson, formann stjórnar Samkeppniseftirlitsins, sem birtist í Morgunblaðinu síðastliðinn þriðjudag. Fyrir þá sem ekki hafa fylgst með málinu þá gengur þetta að einhverju marki út á það að reyna að leiða fram hvor aðilinn segir ósatt í málinu, hæstv. matvælaráðherra eða forstjóri Samkeppniseftirlitsins, varðandi það hver hafði frumkvæði að þessari vinnu. Hér segir, í þessu viðtali við stjórnarformann Samkeppniseftirlitsins síðastliðinn þriðjudag, með leyfi forseta:

„Matvælaráðuneytið fól okkur að vinna verkefnið og skoða útgerðina gegn greiðslu.“

Getur þetta verið nokkuð skýrara núorðið? Þegar stjórnarformaður Samkeppniseftirlitsins lýsir þessu með þeim hætti sem hér er gert er auðvitað engin ástæða til annars og í rauninni nauðsynlegt fyrir okkur hér í þinginu að reyna að leiða þetta mál í jörðu þannig að hið sannasta í málinu liggi fyrir. Maður hlýtur sömuleiðis að velta fyrir sér hvers vegna þetta leikrit er sett upp og reyna að teikna upp þá mynd að Samkeppniseftirlitið hafi haft frumkvæði að þessari úttekt og þessari rannsókn sem hefur nú fengið þá rassskellingu sem raunin er. Ég vil hvetja hæstv. forseta til þess að líta til með þessu atriði með þeim hætti að okkur gefist tækifæri til að leiða það fram hér í þinginu hvor þessara embættismanna og ráðherra er að fara rétt með í málinu því að þessi orð stjórnarformanns Samkeppniseftirlitsins draga upp enn skýrari mynd en áður var tiltæk.