154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

Mannréttindastofnun Íslands.

239. mál
[11:50]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég ætla að byrja á að fagna framkomu þessa máls með öllum venjulegum fyrirvörum. Spurningin sem mig langar til að nota tækifærið og beina til hæstv. ráðherra varðar hversu seint þetta er fram komið, fyrst og fremst. Árið 2019 voru lögð fram áform um þetta mál og var þá metið að það myndi kosta 60 milljónir í heildina. Þegar nýr dómsmálaráðherra tók við féll hún frá áformunum þar sem hún fékk ekki fjárheimild. Hv. þm. Andrés Ingi Jónsson gerði breytingartillögu við fjárlög um 60 millj. kr. fjárveitingu sem meiri hlutinn felldi, meiri hluti hæstv. ráðherra felldi. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað veldur þessum töfum? Svo er ég með fleiri spurningar í næstu lotu.