154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

Mannréttindastofnun Íslands.

239. mál
[11:55]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég tel að hér sé mjög mikilvægt og merkilegt mál og ég harma að málið sé ekki sent til allsherjar- og menntamálanefndar, þar sem ég er er 1. varaformaður. Ég tel að það eigi heima þar.

Það sem mig langaði að spyrja um, svo ég byrji bara á því sem ég var búinn að undirbúa sem andsvör til hæstv. forsætisráðherra, er varðandi það hvort þessi stofnun ætti ekki heima í stjórnsýslunni, hjá framkvæmdarvaldinu, og líka að ég er ekki alveg búinn að kaupa rökin fyrir því að þetta sé undir þinginu. Og eins það hvort þetta ætti ekki að sameinast Mannréttindaskrifstofu Íslands og hvort hér sé ekki verið að búa til nýja örstofnun. Það kemur ekkert fram í frumvarpinu um það hversu margir starfsmenn eiga að vera þar. Hins vegar er grein um ráðgjafarnefnd, 6. gr., og það er ekki minnst á Öryrkjabandalagið, ÖBÍ — réttindasamtök, fyrr en neðst á listanum þar, það er ekki minnst á Geðhjálp, eins og kom fram í andsvörum. Það er ekki minnst á samtök blindra og samtök fatlaðra, t.d. Þroskahjálp.

Einn aðalkjarninn í þessu frumvarpi er réttindagæslumenn fatlaðs fólks. Ég er svolítið hissa á að það standi ekki „réttindagæslufólk“, miðað við hvernig er verið að breyta íslenskri tungu í krafti mannréttinda og ég gæti haldið langa ræðu um stöðu hugtaksins mannréttindi í íslensku samfélagi. Ég skrifaði lokaritgerð um áhrif mannréttindasáttmála Evrópu og gerði það að leik mínum að fylgjast með fréttum þar sem hugtakið mannréttindi var notað á sínum tíma, klippti út greinar. Ég man að ég hætti þessu þegar stóð að Jón Ásgeir Jóhannesson kallaði það mannréttindabrot að hann fengi ekki að selja M&M-kúlur í Bónus. Ofnotkun á þessu orði er stórvarasöm og búið að útvatna það oft. Það er svolítið langt síðan ég útskrifaðist en það koma svona tímabil þar sem hugtakið mannréttindi fer alveg af stað, svo það liggi fyrir. En hvað um það.

Hérna er mjög mikilvægt frumvarp. Þetta er þáttur í lögleiðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og kjarninn í þessu frumvarpi er 9. gr., um réttargæslumenn fatlaðs fólks. Það er vel. Það sem ég geri athugasemdir við, og tel mikilvægt að við fjöllum um, er það að Mannréttindastofnun Íslands, það er 1. gr., starfi á vegum Alþingis. Ef við skoðum önnur Norðurlönd þá er ekki alveg ljóst hvaða fyrirmynd við höfum hvað það varðar. Íslensk stjórnsýsla miðar alltaf við Danmörku, það hefur verið mjög góður grunnur þaðan. Í Danmörku er sagt að mannréttindastofnun Danmerkur, Institut for menneskerettigheder, sé sjálfstæð stofnun sem hljóti fjárveitingu frá danska þinginu. Það er ekki sagt að hún starfi á vegum þingsins. Í Finnlandi heyrir mannréttindaskrifstofan undir umboðsmann finnska þingsins sem skipar forstjóra. Þar er ekki sagt að hún starfi á vegum þingsins. Sama er varðandi Noreg, þar heyrir stofnunin undir þingið, eins og kemur fram í greinargerðinni. Hins vegar hafa þeir í Svíþjóð vísað þessu til sænska atvinnuvegaráðuneytisins og heyrir verksvið undir jafnréttismálaráðherra. Ég geri athugasemd við það. Ég tel, svona fyrsta kastið, ég er ekki búinn að sökkva mér nógu vel ofan í þetta, að þetta ætti að eiga heima hjá framkvæmdarvaldinu og þá helst sameinað Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Ég er ekki hlynntur því að fjölga örstofnunum í landinu þó svo að ég sé að berjast fyrir tilvist héraðsdómstóla úti á landi. En það virðist vera metnaðarmál þessarar ríkisstjórnar að vega að héraðsdómstólum í landinu með því að stofna einn dómstól. Svo er þingmálaskrá, hvað kemur þar fram? Jú, það átti að auka verkefni dómstóla á landsbyggðinni. Það á að stofna einn dómstól en samt er talað um marga dómstóla, héraðsdómstóla. Það sýnir nú vinnubrögðin á þeim bænum hvað það varðar.

Mannréttindi eru varin hjá dómstólum. Það er þar sem verndin fer fram. Ef verið er að brjóta mannréttindi þá sækir fólk rétt sinn til dómstóla. Það er þannig sem þetta virkar. Hvar eru mannréttindi lögfest? Jú, í stjórnarskrá Íslands, þar eru grundvallar borgaraleg mannréttindi varin. Mannréttindakaflinn okkar byggist á mannréttindasáttmála Evrópu og margir tala um það meira að segja að hann sé það vel kóperaður úr mannréttindasáttmála Evrópu að við séum eiginlega komin með túlkunina beint frá Strassborg. Það er ekki sjálfstæð túlkun á þeim samningi, á þeim kafla, hjá okkur. Þannig er nú sjálfstæði Íslands hvað varðar mannréttindi. Ég er ekki að segja að það sé slæmt en það breytir því ekki að þessu var breytt 1994. Þá var allur mannréttindakaflinn lagaður að mannréttindasáttmála Evrópu sem er mjög mikilvægt plagg og ágætt að minna á að Evrópuráðið og mannréttindasáttmáli Evrópu varð til í kalda stríðinu. Það voru Bandaríkin sem studdu stofnun Evrópuráðsins og þetta var til að finna hinn móralska grundvöll í kalda stríðinu, baráttu vestrænna lýðræðisþjóða gegn Sovétríkjunum og kommúnismanum. NATO sá svo um hernaðarhlutann. Ég minni bara á að það má lesa ræður Bjarna Benediktssonar og Jóhanns Jósefssonar frá 1953 hvað það varðar. Það er m.a. vitnað í utanríkisráðherra Írlands sem segir að þarna sé siðferðisgrundvöllurinn fyrir baráttunni í kalda stríðið. En hvað um það.

Ég held að þessa löggjöf mætti skoða enn þá nánar. Í ráðgjafarnefndina vantar einfaldlega fleiri samtök fatlaðra, tel ég, og ég skil ekki af hverju þeim hefur ekki verið gert hærra undir höfði hvað það varðar. Ég tel líka að það sé spurning hvort það ætti ekki að skoða þetta varðandi stofnanahlutann, annars vegar staðsetninguna, hvort þetta ætti að vera hjá framkvæmdarvaldinu eins og áður sagði, og hins vegar hvort Mannréttindaskrifstofan ætti ekki að sameinast þar, og jafnvel aðrar stofnanir.

En það er gríðarlega mikilvægt að kveðið sé á um réttindagæslumenn fatlaðs fólks í lögum og þá er spurning hvort það ætti kannski heima þá bara beint — manni dettur nánast í hug að það sé ákveðinn tvíverknaður hérna eða tvítekning, af því að við erum með lög um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, lög nr. 88/2011, en svo erum við með 9. gr., um réttindagæslumenn fatlaðs fólks, og spurning hvort við hefðum getað farið aðra leið til að tryggja að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks yrði lögleiddur án þess að búa til risastóra stofnun. Ég óttast sjálfur stofnanir sem hafa hugtakið mannréttindi og það getur verið ofnotað. Við sjáum að Reykjavíkurborg er með mannréttindaskrifstofu og ég er að heyra það að ef menn byggja hjólaskýli þá komi fulltrúi frá Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar og kanni það hvort það sé rétt byggt hjólaskýli eða ekki. Það er bara eitt dæmi sem ég heyrt varðandi mannréttindi í höfuðborginni og hvað sveitarfélagið er að nota svona mikilvægt hugtak yfir deild hjá sér.

Varðandi kortlagningu mannréttinda sem forsætisráðherra vísaði til hér áðan, að það væri mikilvægt að það væri kortlagning á mannréttindum, þá rannsakaði ég sjálfur alla hæstaréttardóma frá 1953–2013, ef ég man rétt, alls staðar þar sem minnst var á þau, í hæstaréttardómum og meira að segja nokkur héraðsdómum, mannréttindasáttmála Evrópu. Það má skoða þá dóma og þeir liggja fyrir í dómasafninu, ég gerði sjálfur reifun á því og það var fylgigagn með minni lokaritgerð. Það er þar sem mannréttindi eru varin og mér sýnist það vera orðið þannig núna að ef það eru einhver mannréttindi í landinu sem sæta árásum sé það íslenskt tjáningarfrelsi. Það eru borgaraleg réttindi, þetta er grundvöllur vestrænna þjóða og maður gapir hreinlega yfir því hvernig tjáningarfrelsinu er háttað á Íslandi. Ég er kannski búinn að búa of lengi erlendis en það er ekki svona í öðrum ríkjum, tjáningarfrelsið er fótum troðið á Íslandi. Þar eru stjórnmálamenn og þeir sem ráða umræðunni, ekki síst RÚV og fleiri stofnanir, sem eru þar fremst að verki og þöggun, útilokun og kansellering í íslensku samfélagi er alveg hreint með ólíkindum, svo það liggi fyrir. Ég vona að það verði þá verksvið þessarar stofnunar að taka á því.

Ég get hins vegar ekki séð að í þessu frumvarpi hérna, þessu stutta frumvarpi, sem er hvað, 12 gr., sé nægilega skilgreint hvert verkefni þessarar Mannréttindastofnunar Íslands eigi að vera. Jú, við erum hérna með 2. gr., sem fjallar um hlutverk, en ég get ekki séð það — það er ekki úrskurðarvald eða neitt slíkt sem það á að taka á. Það á að vera með skýrslugerð til alþjóðlegra eftirlitsaðila, hvetja og stuðla að og taka þátt í rannsóknum, fræðslu og opinberri umræðu um mannréttindi. Opinber umræða um mannréttindi er viðkvæm umræða. Það er ekki langt í pólitíska umræðu í opinberri umræðu um mannréttindi. Það sannar umræðan undanfarin misseri og bara síðustu vikur jafnvel. Þannig að það er ekki gott að við fáum einhverja stofnun undir Alþingi sem almenningur á erfitt með að gagnrýna sem fer síðan að taka þátt í opinberri umræðu um mannréttindi, sérstaklega miðað við hvernig pólitíkin er búin að útjaska því orði á undanförnum misserum.

Það er mikilvægt hérna að hlutverkið verði enn þá betur skilgreint og upplýsingagjöf og eftirlit verði líka skilgreint betur og hvað það er raunverulega sem hlutverk stofnunarinnar er annað en að tryggja að rétt innleiðing samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks nái fram að ganga. Hvað er það annað sem er tilgangurinn með þessari mannréttindastofnun? Það liggur ekki ljóst fyrir. Ég tel að sú innleiðing sé gríðarlega mikilvæg en það má líka gera það með öðrum hætti og jafnvel ódýrari hætti. Þetta á eftir að fara í nefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, en því miður fer það ekki í þá nefnd sem ég sit í, sem er allsherjar- og menntamálanefnd. Ég held að það hefði verið réttara að senda það þangað.

Vissulega er það hlutverk Alþingis að ákveða það hvort þetta eigi að heyra undir Alþingi eða vera hluti af framkvæmdarvaldinu, eða eins og segir í frumvarpinu:

„Mannréttindastofnun Íslands starfar á vegum Alþingis.“

Nú erum við með tvær stofnanir sem heyra undir Alþingi eða sem starfa á vegum Alþingis. Það eru umboðsmaður Alþingis og Ríkisendurskoðun. Báðar þessar stofnanir hafa eftirlit með stjórnsýslunni, eftirlit með því að stjórnsýslan sé að gera — Ríkisendurskoðun hefur breiðara hlutverk, kannski má líka segja það, en umboðsmaður er að minnsta kosti að fjalla um hvort stjórnsýslan hafi farið að réttum lögum í stjórnsýsluframkvæmd sinni. Mér finnst skilgreiningin ekki alveg nógu skýr til að réttlæta að þetta heyri undir Alþingi, séu skoðaðar þær stofnanir sem nú þegar heyra undir Alþingi.

Það verður fróðlegt að sjá umsagnir um þetta frumvarp og ég vona að þetta frumvarp tryggi lögleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það er grundvallaratriði að sú lögleiðing verði tryggð en ég hef stórar efasemdir um önnur hlutverk þessarar stofnunar.