154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

Mannréttindastofnun Íslands.

239. mál
[12:19]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hann talaði ágætlega skýrt í ræðu sinni, svo það komi fram. Eins og ég skil stjórnarfrumvörp þá fara þau frá ráðuneytunum til þingflokkanna til umfjöllunar og þaðan í ríkisstjórn þannig að ég get ekki séð annað en að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins og þingflokkar stjórnarflokkanna hafi fjallað um frumvarpið og tekið afstöðu til þess. En það er vissulega rétt að það má breyta því núna og ég var bara að leita eftir afstöðu hv. þingmanns og hver afstaða þingflokksins væri. Þetta er stjórnarfrumvarp og þá er væntanlega tryggt að þingmeirihlutinn, stjórnarmeirihlutinn, styðji þetta frumvarp. En ég hef hins vegar heyrt efasemdir um ákveðna þætti frumvarpsins, bæði hjá hv. þingmanni og hér fyrr í andsvörum hjá hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur. Það liggur fyrir. Ég mun kannski óska eftir því að málið fari fyrir allsherjar- og menntamálanefnd ef ég get, það kemur bara í ljós, en ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvar sitt.