154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

Mannréttindastofnun Íslands.

239. mál
[12:22]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að hæstv. forsætisráðherra hafi nú mælt fyrir frumvarpi til laga um Mannréttindastofnun Íslands. Þetta er eitt af þeim málum sem ég hef hlakkað mjög til að kæmi til þingsins og ég tel afar mikilvægt að svona mannréttindastofnun verði komið á fót hér á Íslandi.

Mig langar aðeins að segja, vegna þess að það var aðeins talað um í hvaða nefnd málið ætti að fara og hv. þm. Eyjólfur Ármannsson vildi fá málið til sín þar sem hann er 1. varaformaður allsherjar- og menntamálanefndar, að ég vona að málið sé ekki síður í góðum höndum hjá okkur í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þar sem ég er 1. varaformaður. Ég get bara lofað hv. þingmanni því að auðvitað fær þetta mál góða og ítarlega efnislega meðferð og umræðu í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og þannig vinna auðvitað allar nefndir þingsins.

Það hefur komið mér pínulítið á óvart og mér hefur fundist það merkilegt hvað sumir þingmenn í þessari umræðu virðast óttast mannréttindi á einhvern hátt og reynt að finna ýmsa snúninga á því að það sé einhvern veginn ekki gott að koma á fót mannréttindastofnun, það geti verið einhver vandkvæði á því. Auðvitað þarf að huga vel að umgjörð slíkrar stofnunar en mikilvægi hennar hefði ég haldið að ætti ekki að dyljast neinum. Hæstv. forsætisráðherra fór í sinni framsögu ágætlega yfir það hvernig þetta er m.a. til þess að hægt sé að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það eitt og sér tel ég vera alveg gríðarlega stórt og mikið atriði. Svo er það nú bara þannig að því miður eiga mannréttindi undir högg að sækja víðs vegar um heiminn og því miður hérna á Íslandi líka þannig að almennt séð þá finnst mér tímasetningin á þessu máli vera mikilvæg vegna þess að við erum í samfélagslegri umræðu á heimsvísu þar sem mannréttindi eiga undir högg að sækja. Þá er frábært að Ísland ætli að taka það skref að koma á fót mannréttindastofnun.

Eitt af hlutverkum Mannréttindastofnunar Íslands á að vera að vinna að því að opinberir aðilar og einkaaðilar virði mannréttindi á öllum sviðum samfélagsins og vera aðilum til ráðgjafar um eflingu og vernd mannréttinda. Mig langar að segja að þegar ég las í gegnum frumvarpið þá rifjaðist upp fyrir mér umræða sem við áttum hér í þessum þingsal fyrir þó nokkuð mörgum árum um upplýsingar sem komu fram um ofbeldi sem fatlaðar konur voru beittar á ýmsum stofnunum í samfélaginu. Þá hefði nú aldeilis verið frábært ef það hefði verið til mannréttindastofnun sem hefði getað verið til aðstoðar og hefði verið hægt að leita til. Sem betur fer var unnið úr þeim málum og það voru skrifaðar skýrslur og vonandi gerðar breytingar þannig að svona kerfisbundið ofbeldi endurtaki sig ekki. En við vitum það að fólk sem er í viðkvæmri stöðu er alltaf útsett fyrir því að mannréttindi þeirra séu ekki virt. Og mér finnst mikilvægt að rifja upp svona mál þegar við erum að fjalla um frumvarp til laga um Mannréttindastofnun Íslands. Auðvitað skiptir umgjörðin máli, hvar stofnunin er innan stjórnkerfisins og ég er sammála hæstv. forsætisráðherra í því að ég tel fara best á því að hér sé um sjálfstæða stofnun að ræða. Mér finnast mannréttindi vera það stórt mál að mér fyndist bara fara vel á því að þetta sé sjálfstæð stofnun og hafi sambærilegan sess og til að mynda umboðsmaður Alþingis því mikilvægið er svo gríðarlegt. Þannig að mér finnst mikilvægt að við týnum okkur ekki bara í umræðu um umgjörðina þó svo að hún skipti auðvitað máli. Ég hef alveg heyrt hvað hefur komið hér fram í þessari umræðu um að einhverjir þingmenn telji stofnunin frekar eiga heima undir framkvæmdarvaldinu. Gott og vel. Við köfum frekar ofan í rökin með og á móti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. En mér finnst líka mikilvægt að ræða inntakið, að ræða það af hverju það er mikilvægt að koma á fót mannréttindastofnun. Það er auðvitað vegna þess að við viljum að Ísland sé í fremstu röð þegar kemur að mannréttindum fólks.

Ég er að hugsa um að hafa þessa ræðu ekki lengri en vil bara endurtaka það að ég fagna því mjög að þetta frumvarp sé nú komið fram. Við tökum það til meðferðar og rýni, bæði efnislega og út frá því hvar stofnunin skuli vera staðsett, og skoðum auðvitað þær ábendingar sem hafa komið fram í þessari umræðu, eins og um það hvaða samtök það eru sem eiga að hafa fast sæti í nefndinni og einnig að fjalla um stöðu réttindagæslumanna og svo gríðarlega margt annað. Ég ætla bara að leyfa mér að binda vonir við það að við fáum málið hér aftur til 2. umræðu eftir ekkert svo langan tíma vegna þess að ég tel málið brýnt og ég tel að það væri Íslandi mikill sómi að því að þetta frumvarp yrði að lögum.