154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

Mannréttindastofnun Íslands.

239. mál
[12:53]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég var ekki alveg með á hreinu þegar hún talaði um réttindagæslumenn fatlaðs fólks, sem er 9. gr. og klárlega mikilvægasta ákvæði þessa frumvarps svo að við getum lögleitt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, og lögræðissviptingar. Ég skil það þannig að þetta ákvæði um réttindagæslumenn fatlaðs fólks nái ekki til lögræðissviptingar og annarrar sviptingar fyrir dómstólum — þá eru það bara dómarar sem skipa lögmenn — heldur sé þetta meira þannig, eins og segir í frumvarpinu, að þeir skuli aðstoða börn og annað slíkt og ávallt hafa það að leiðarljósi sem er barninu fyrir bestu í störfum sínum. Svo kemur fram í greinargerðinni að réttindagæslumaður skuli aðstoða við að kæra mál til viðeigandi úrskurðaraðila o.s.frv.

Annað áhugavert kemur líka fram í frumvarpinu en í skýringu við 9. gr. segir, með leyfi forseta:

„Þó að réttindagæslumenn fatlaðs fólks verði samkvæmt frumvarpinu hluti af Mannréttindastofnun Íslands mun félags- og vinnumarkaðsráðuneytið áfram hafa mikilvægu hlutverki að gegna þegar kemur að réttindagæslu. Má t.d. nefna að áfram er gert ráð fyrir að réttindavakt starfi innan ráðuneytisins, sbr. 3. gr. laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk. Enn fremur verður áfram fjallað um persónulega talsmenn fatlaðs fólks í lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk. Sú breyting er lögð til að í stað réttindagæslumanna verði það hlutverk sýslumanns að staðfesta val á persónulegum talsmönnum …“

Ég er búinn að skoða lögin um réttindagæslu fyrir fatlað fólk og það sem stendur í frumvarpinu og finnst þá hlutverk 9. gr. frumvarpsins svolítið óljóst. (Forseti hringir.) Gæti hv. þingmaður varpað skýrara ljósi á það og hvort þetta sé ekki rétt varðandi lögræðissviptingar og aðrar sviptingar fyrir dómstólum?