154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

Mannréttindastofnun Íslands.

239. mál
[13:06]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir umræðu, ýmislegt sem hefur komið fram hér. Mér finnst mikilvægt að árétta hér í byrjun að þetta frumvarp er mjög afgerandi og endurspeglar þá eindregnu afstöðu mína að þessi stofnun eigi að heyra undir þingið. Að sjálfsögðu er það svo þingsins að taka afstöðu til þess í lokin, eins og á við um öll frumvörp sem hér eru lögð fram, það er nú ekki flóknara en það. Ég áréttaði það sérstaklega í minni framsöguræðu vegna þess að ég er hér að leggja til að þetta heyri undir þingið. En ég er ekki þar með skoðanalaus um málið eins og mér finnst einhverjir hv. þingmenn hafa gefið til kynna. Ég færði fyrir því mjög ítarleg rök af hverju mér finnst þetta vera rétt niðurstaða og það varðar sjálfstæði og óhæði stofnunarinnar. Hér hafa verið nefndar stofnanir sem vissulega eru skilgreindar sem sjálfstæðar stofnanir í lögum. Þær eru til að mynda sumar hverjar líka með sjálfstæða tekjustofna í lögum. Það er ekki raunin hér heldur er þetta stofnun sem myndi fá fjárveitingar frá Alþingi og vera með stjórn kjörna af Alþingi. Það undirstrikar auðvitað sjálfstæði hennar.

Ástæða þess að ég legg til að þetta mál gangi til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er að það er tillaga forseta Alþingis, sem hefur verið í miklu samráði um þetta mál. Ég styð forseta Alþingis í þeirri tillögu og finnst hann hafa fært fyrir því góð rök, sem eru þau að þetta mál snýst auðvitað um nýja stofnun undir Alþingi, sem fer vissulega með ákveðinn málaflokk, mannréttindi, rétt eins og þær stofnanir sem heyra undir Alþingi, eins og Ríkisendurskoðun og Umboðsmaður Alþingis, snerta á ýmsum ólíkum málaflokkum. Það er mín eindregna afstaða. En ég hefði nú talið að það mikilvægasta í þessu væri auðvitað að þetta mikilvæga mál kæmist til meðferðar þingsins og þar ber ég fullt traust til allra nefnda þingsins, eins og hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir nefndi.

Hér hefur verið rætt aðeins um skipan ráðgjafarnefndar og ég vil bara ítreka það að þegar kveðið er á um tiltekna aðila sem fast sæti eiga í þeirri ráðgjafarnefnd þá var reynt að endurspegla ákveðna breidd. Það eru alveg gild sjónarmið sem hér hafa komið fram um önnur félög en hér eru auðvitað bæði Öryrkjabandalag Íslands og Landssamtökin Þroskahjálp. Ég vil minna á að það er lagt til að fjórir einstaklingar séu svo kjörnir svo sérstaklega, en ekki er kveðið á það um í lögum. En það er að sjálfsögðu eitthvað sem þingið tekur til skoðunar í sinni meðferð.

Ég vil líka fara aðeins yfir stjórnina og þær athugasemdir sem þar komu fram. Ég tel í sjálfu sér ekkert mæla gegn því að það verði skrifað inn í frumvarpið eitthvert orðalag sem kveður á um að skipanin sé að jafnaði með tilteknum hætti því að hugsunin er alveg skýr; það er verið að reyna að tryggja ákveðna samfellu, en það þarf ekki að vera eitthvert bókstafstrúarlögmál inni í þessu.

Ég vil nefna líka Mannréttindaskrifstofu Íslands og það er mikilvægt að það sé ítrekað hér, af því að það hefur einhvers misskilnings gætt í því, að Mannréttindaskrifstofan hefur haft ákveðið hlutverk og hún hefur notið styrks frá stjórnvöldum. En það er algerlega skýrt að sá styrkur mun nú renna inn í nýja stofnun þannig að heildarfjárframlög frá ríkinu til Mannréttindaskrifstofu Íslands, sem voru 39 millj. árið 2022, renna inn í þessa nýju stofnun. Og ég vil bara minna á það að Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur frá upphafi hvatt stjórnvöld til að koma lögbundinni mannréttindastofnun á fót og hefur ítrekað bent á að starf hennar komi ekki í stað slíkrar stofnunar, enda grundvallarskilyrði samkvæmt Parísarviðmiðunum og á sér styrka stoð í lögum. Þannig að þarna er ekki verið að bæta við framlög hins opinbera heldur er einfaldlega verið að leggja til að framlögin renni þá inn í þessa nýju stofnun.

Ég vil svo ítreka það sem rætt var um varðandi persónulega talsmenn fatlaðs fólks sem hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir fór svo ágætlega yfir í sinni ræðu hér, að þessi kortlagning stendur yfir. Ég vonast til að við getum farið betur yfir hana þegar málið kemur til þinglegrar meðferðar. Ég vil líka ítreka það sem ég sagði hér áðan: Það er ekkert sem útilokar að þingið feli okkur það að skoða fleiri verkefni sem gætu færst undir þessa nýju stofnun og gert hana þar með öflugri í því mikilvæga hlutverki sem hún hefur að gegna. Það mætti hugsa sér að gera það með bráðabirgðaákvæði. En það sem mér finnst mikilvægast er að þessari stofnun verði komið á fót, að hún standist þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist, sem er að hafa eftirlit með öllum þeim mannréttindasáttmálum sem við erum aðilar að og er líka forsenda þess að lögfesta sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þetta er ekki eingöngu um það, þetta snýst um að hafa eftirlit með öllum þeim mannréttindasáttmálum sem við erum aðilar að. Slík verkefni geta að sjálfsögðu vaxið. En ég myndi telja mjög mikilvægt — fyrir utan það að þetta mál fái vandaða meðferð og það er nú komið inn í septembermánuð þannig að það ætti að vera ærinn tími til að fara yfir það. En það skiptir hins vegar máli að meðferðinni verði lokið og málið fái afgreiðslu hér í þingsal því að þetta er forsenda þess að það sé svo hægt að halda áfram með lögfestinguna sem við erum búin að bíða ansi hreint lengi eftir, eins og við öll vitum sem hér erum inni.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra og ítreka þá tillögu mína að þetta gangi til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem er þá að höfðu samráði við forseta þingsins. Það kunna að vera einhverjar aðrar tillögur um það, en ég minni bara á að þetta mál er brýnt og það skiptir máli að þingið fái góðan tíma til að veita því vandaða umfjöllun.