154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

Samkeppniseftirlit.

[13:37]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að setja á dagskrá sérstaka umræðu um samkeppnismál. Ég tel fulla þörf á því að við ræðum um samkeppnismál hér á Alþingi með reglubundnum hætti í ljósi þjóðhagslegs mikilvægis þeirra. Það á sérstaklega við nú þegar eitt brýnasta sameiginlega verkefni okkar er að ná tökum á verðbólgunni.

Hv. þingmaður beindi þremur spurningum til mín og mun ég veita svör við þeim. Í fyrsta lagi er spurt hver sé að mati ráðherra besta leiðin til að gera eftirlit með samkeppnisbrotum skilvirkara. Ég lít svo á að eftirlit með samkeppnisbrotum sé skilvirkt og það sé nauðsynlegt að samkeppnisyfirvöld hafi þau tæki og tól sem þarf til slíks eftirlits. Hluti af því er viðunandi lagaheimildir og bolmagn til að rannsaka brotin og valdheimildir til að knýja slíkar rannsóknir áfram. Í samkeppnislögum er Samkeppniseftirlitinu veittar víðtækar heimildir til að rannsaka samkeppnisbrot, bæði í einstökum málum vegna sérstaks gruns um ólögmæta háttsemi sem og til að kortleggja heilan markað í því skyni að kanna hvort þar séu ástæður til að samkeppni sé með eðlilegu móti.

Virðulegur forseti. Í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á störfum Samkeppniseftirlitsins sem kynnt var fyrir rúmu ári síðan tók Ríkisendurskoðun til athugunar málsmeðferð og úrlausn þeirra 100 samrunamála sem Samkeppniseftirlitið rannsakaði á tímabilinu 2018–2020. Í niðurstöðum stjórnsýsluúttektarinnar kemur fram varðandi skilvirkni, málshraða og málsmeðferð, að ekki verði séð að á tímabilinu 2018–2020 hafi málsmeðferðartími samrunamála verið óeðlilega langur eða að viðvarandi veikleikar í afgreiðslu þeirra hafi grafið undan skilvirkni, árangri og hagkvæmni starfseminnar. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er jafnframt komist að þeirri niðurstöðu að breytingar Samkeppniseftirlitsins á reglum um tilkynningu og málsmeðferð í samrunamálum, nr. 1390/2020, hafi almennt verið til þess fallnar að auka skilvirkni auk þess sem breytingar á skipulagi stofnunarinnar árið 2018 hafi miðað að hinu sama. Í skýrslunni koma hins vegar fram nokkrar ábendingar til úrbóta til að styrkja starfsemi Samkeppniseftirlitsins og umgjörð þess. Eru þær ábendingar til nánari skoðunar í mínu ráðuneyti.

Það er mín skoðun að aukin skilvirkni, gagnsæi og traust málsmeðferð séu lykilþættir í starfsemi Samkeppniseftirlitsins og munum við áfram vinna í að finna leiðir til að efla þá þætti. Markmið samkeppnislaga er að efla virka samkeppni í viðskiptum og vinna þannig að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Samkeppniseftirlitið fer því með afar mikilvægt hlutverk í okkar samfélagi. Sjálfstæði stofnunarinnar sem og almennt traust til hennar er forsenda fyrir öflugu og virku samkeppniseftirliti. Það er því mikilvægt að standa vörð um sjálfstæði Samkeppniseftirlitsins, eins og ég hef talað ítrekað fyrir og nýleg dæmi sanna. Jafnframt mikilvægt að efla traust til stofnunarinnar í ljósi mikilvægis hennar. Sjálfstæði og traust er hér sitt hvor hliðin á sama peningnum.

Virðulegur forseti. Í öðru lagi, varðandi hvort stjórnvöld hafi að mati ráðherra tryggt Samkeppniseftirlitinu nægilegt svigrúm til að sinna eftirliti með samkeppnisbrotum, þá er því til að svara að Samkeppniseftirlitið er vissulega fámenn stofnun og hefur þurft að forgangsraða í sínum störfum um áraraðir eins og gildir reyndar um margar aðrar ríkisstofnanir. Ég vil hér hins vegar benda á að þróun fjárveitinga til Samkeppniseftirlitsins í gegnum fjárlög síðustu tíu ára sýnir að fjárveitingar hafa hækkað um 176 millj. kr. frá árinu 2014 til 2024, eða úr 396 milljónum í 572 milljónir. Á síðustu þremur árum hafa jafnframt komið fram sérstök viðbótarframlög til stofnunarinnar til afmarkaðra verkefna eins og í samstarfi við Efnahags- og framfarastofnunina. Ávallt má deila um hvort þar sé um að ræða fullnægjandi fjárhagslegt svigrúm til að sinna eftirliti með samkeppnisbrotum.

Þar sem tími minn, virðulegur forseti, er aðeins að takmarkast þá geri ég ráð fyrir því að það séu fleiri þingmenn sem vilji taka til máls og óska eftir því að ég geti svarað fleiri spurningum hér síðar í ræðupúlti.