154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

Samkeppniseftirlit.

[13:52]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Með leyfi forseta, úr skýrslu Samkeppnisstofnunar frá árinu 2003:

„Eftir því sem viðskiptalífið og umhverfi þess hefur verið að breytast hafa verkefni eftirlitsstofnana þróast og þeim fjölgað. Í fyrri ársskýrslum Samkeppnisstofnunar hefur verið bent á að kraftar samkeppnisyfirvalda hafi á síðustu árum í síauknum mæli farið í að sinna eftirliti og athugunum á samkeppnishindrandi samráði fyrirtækja og samkeppnishamlandi hegðun markaðsráðandi fyrirtækja. Þessi verkefni eru mörg hver mjög umfangsmikil þar sem rannsakaðir eru viðskiptahættir og gögn frá stórfyrirtækjum á íslenskan mælikvarða …“

22 starfsmenn unnu þá í Samkeppnisstofnun. Árið 2014 voru ársverk rétt rúmlega 23. Í dag eru þau rúm 27, 19% aukning á undanförnum áratug. Ábendingum fjölgaði hins vegar um rúmlega 160% árin 2018–2021. 45 samrunamál voru unnin árið 2021 en 30 árið 2006, 50% aukning. Það lítur út fyrir að verkefnaálagið hafi aukist umfram ársverk; færri hendur að vinna fleiri verk. Hæstv. ráðherra segir aukningu um 176 milljónir en þetta eru verðlausari krónur í launabótum. Það er ekki að skila sér í þeirri aukningu sem hefur orðið í verkefnum þessarar stofnunar.

Einnig segir í skýrslunni frá 2003:

„Þá hafa önnur umfangsmikil mál, þ.á m. rannsóknin á meintum samkeppnishindrunum á vátryggingamarkaði og athugun á meintri misnotkun Hf. Eimskipafélags Íslands á markaðsráðandi stöðu félagsins í sjóflutningum, vegið þungt í störfum samkeppnissviðs á árinu 2003.“

Forseti. Sem sagt: Fyrir tveimur áratugum var líka verið að rannsaka samráð og samkeppnisvandamál, gjarnan hjá Eimskipum sem hafa viðurkennt sök í málinu í dag sem var fyrir áratug síðan. Í dag er örugglega tilefni til að rannsaka samráð af þeirri einföldu ástæðu að það er alltaf tilefni til þess. Til þess þarf öflugt samkeppniseftirlit af því að atvinnufrelsi snýst um að hafa frelsi til athafna, ekki frelsi til að svindla á öðrum. Til að tryggja atvinnufrelsi fyrir okkur öll, ekki bara frelsi fyrir suma, þarf góða dómara.