154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

Samkeppniseftirlit.

[13:54]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Fyrir nokkrum árum sektaði Samkeppniseftirlitið Mjólkursamsöluna með hárri sekt fyrir alvarleg samkeppnislagabrot. Afhjúpandi viðbrögð forstjóra MS framkölluðu reiði almennings þegar í ljós kom að fyrirtækið ætlaði að velta kostnaðinum af sektinni beint yfir á neytendur. Nýlega gerist það svo að Samkeppniseftirlitið sektar Samskip fyrir alvarleg brot og aftur reiðist almenningur. En hér er á sumum þingmönnum að skilja að það sé Samkeppniseftirlitið sem sé vandamálið. Að vera á móti samkeppnislögum og samkeppniseftirliti er í mínum huga eins og að vera á móti umferðarreglum og umferðarljósum.

Heilbrigður markaður einkennist af heilbrigðri samkeppni. Þeir sem brjóta samkeppnisreglur brjóta gegn markaðinum og brjóta gegn neytendum. Fákeppni ógnar hagsmunum almennings. Mig langaði til að halda því til haga að þegar samkeppnisreglur komu fyrst fram í Bandaríkjunum árið 1890 var alveg skýrt að tilgangurinn væri sá að vernda neytendur gegn háu verði og vernda gegn takmörkuðu framboði. Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur sagt að samkeppnislög séu jafn mikilvæg fyrir efnahagslegt frelsi og stjórnarskráin er fyrir vernd mannréttinda.

Virk samkeppni á markaði er almannahagsmunamál og það er ótrúlegt að okkur sem samfélagi hafi ekki gengið betur að efla hér heilbrigða samkeppni. Hér eru starfandi fjölmiðlar á Íslandi í dag sem hamast í Samkeppniseftirlitinu en taka til varna fyrir lögbrot á markaði og hér eru stjórnmálaflokkar sem sumir tala um að eftirlit á markaði sé einhvers lags bank en ekki trygging fyrir því að eðlilegar leikreglur á markaði fái að þrífast. Samkeppnislögin standa á tveimur stoðum; það er annars vegar þetta opinbera eftirlit og síðan úrræði einkaaðila til að sækja sér skaðabætur vegna tjóns. Skaðabótareglurnar sem við erum með hafa ekki reynst skilvirkar og það er markmiðið með skaðabótatilskipunum ESB að auðvelda tjónþolum, auðvelda neytendum, auðvelda almenningi að sækja bætur.