154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

Samkeppniseftirlit.

[13:57]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir að hefja þessa umræðu og þakka einnig hæstv. ráðherra, Lilju Dögg Alfreðsdóttur, fyrir hennar yfirferð í tengslum við þetta mikilvæga mál. Við Íslendingar viljum byggja upp efnahagsstarfsemi og velferð á grunni stöðugleika, virkrar samkeppni, gagnsæis og heilbrigðra viðskiptahátta. Framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar er skýr hvað varðar að viðhafa virkt markaðseftirlit sem styður við markmið um góða atvinnu og hagvöxt, ábyrga neyslu og framleiðslu, nýsköpun og uppbyggingu. Ríkisstjórnin er einnig einhuga um að tryggja að reglusetning og eftirlit sé skilvirkt. Við gerum það með auknu gagnsæi og skilvirkni, með virkri samkeppni og heilbrigðum viðskiptaháttum, aukum traust með góðri upplýsingagjöf og rafrænni stjórnsýslu og aukum samkeppnishæfni með því að draga úr hindrunum í gildandi regluverki. Að þessu sögðu má nefna að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að samkeppniseftirlit verði styrkt. Það þarf að tryggja fjárhagslegt svigrúm Samkeppniseftirlitsins svo það geti uppfyllt sitt lögbundna hlutverk. Traust í þessu og traust til eftirlits er mjög mikilvægt.

Virðulegur forseti. Helstu tækifæri til umbóta á sviði samkeppnismála eru að áfram verði unnið að endurskoðun stofnanaumgjarðar á sviði samkeppnismála með það að markmiði að styrkja samkeppni innan lands, tryggja stöðu neytenda betur í nýju umhverfi viðskipta og efla alþjóðlega samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Vil ég að lokum sérstaklega taka undir með hæstv. ráðherra, Lilju Dögg Alfreðsdóttur, er hún segir hér í umræðunni í dag, sem á sérstaklega við, að okkar brýnasta verkefni er að ná tökum á verðbólgunni.