154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

Samkeppniseftirlit.

[14:06]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Öflugt samkeppniseftirlit er partur af því að tryggja sanngirni í samfélaginu og þess vegna er það mikilvægt. Ólöglegt samráð á auðvitað ekki að líðast og á slíkum brotum verður að taka enda er þar um að ræða brot sem að lokum bitna á almenningi og mér finnst ekki að það eigi að líta á þau lögbrot einhverjum öðrum hætti en annars konar lögbrot. Krafan um aukið gagnsæi, m.a. aukið gagnsæi í sjávarútvegi, er mikilvæg og í mínum huga raunar lykilatriði. Ég tel að aukið gagnsæi þar myndi efla traust almennings á íslenskum sjávarútvegi og myndi líka verða til þess að við getum fullvissað okkur um að ekki sé verið að viðhafa ólöglegt samráð eða haga málum þar með öðrum hætti en á að gera lögum samkvæmt. Auðvitað eiga fyrirtæki að sjá sóma sinn í því að stunda heiðarleg viðskipti. Því miður hefur borið á því í umræðu hér á Alþingi, og ég vil taka fram að það er ekkert endilega í þessari umræðu hér, að aukið gagnsæi í sjávarútvegi sé furðuleg hugmynd (Forseti hringir.) Mér finnst mikilvægt að nefna að auðvitað á að vera gagnsæi þar og það skiptir máli að nefna það hérna þegar við erum að tala um samkeppnismál og samkeppniseftirlit.