154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

Samkeppniseftirlit.

[14:11]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Ég vil þakka þessa umræðu og mér hefur þótt hún góð. Nokkrir punktar: Á síðustu árum og áratugum hefur íslenskt atvinnulíf orðið fjölbreyttara en áður, sem betur fer, og eins hafa áhrif erlendis frá aukist. Við getum nefnt umsvif stórra alþjóðlegra fyrirtækja sem hafa fest rætur hér eins og annars staðar með vöru sína og þjónustu og svo að okkar fyrirtæki eiga í aukinni alþjóðlegri samkeppni, sem sagt bæði hér innan lands og svo sum í starfsemi erlendis. Þetta gerir eftirlitshlutverk Samkeppniseftirlitsins flóknara og mikilvægara og þetta gerir þar með stuðning stjórnvalda við samkeppniseftirlit mikilvægara en fyrr. Helsta gagnrýni sem hefur komið fram hér er sá tími sem rannsóknir Samkeppniseftirlitsins eiga til með að taka og ég get tekið heils hugar undir það — aftur. Hæstv. ráðherra nefndi úttekt Ríkisendurskoðunar og að tilteknar ábendingar til úrbóta væru til skoðunar í ráðuneytinu. Það er líka áhugavert að velta því upp að samrunamálin, sem hæstv. ráðherra nefndi og eru svo mörg, eru háð lögbundnum fresti, nokkuð sem gerir að verkum að þau fara efst í forgangsröðunina og þar með er hætta á að önnur mál sem varða t.d. ólögmætt samráð eða aðra markaðsmisnotkun fari neðar og taki þar af leiðandi lengri tíma. Ég held að ég fari rétt með að talað er um að 8% af tíma Samkeppniseftirlitsins fari í slík mál meðan viðmiðið er sirka 40% í nágrannalöndunum. Þetta tel ég einsýnt að þurfi að laga.

Við nefndum mörg að virkt samkeppniseftirlit er sérstaklega mikilvægt á tímum þar sem verðbólga og vextir herja á heimilin og þegar sífelldar verðlagshækkanir gera okkur dofin fyrir eðlilegri þróun verðlags. Eitt mikilvægasta hlutverk stjórnvalda er að ná niður verðbólgu, það er enginn vafi, og því tengt að tryggja að hagsmunir heimila landsins og fyrirtækja skaðist ekki af þessum aukaverkunum sem geta skapast af verðbólgunni. Það er nóg samt. Þarna er hlutverk heilbrigðs samkeppnismarkaðar (Forseti hringir.) og samkeppniseftirlits þar með risastórt. (Forseti hringir.)

Ég þakka fyrir umræðuna og óska ráðherra velfarnaðar í því verkefni að standa vörð um sterkt og skilvirkt samkeppniseftirlit.