154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

Samkeppniseftirlit.

[14:13]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka þakkir mínar til hv. þm. Hönnu Katrínar Friðriksson um að hefja þessa umræðu. Í ljósi þess þá náðist ekki að svara þriðju spurningunni og ætla ég að fara yfir hana núna þrátt fyrir þau tímamörk sem hér eru.

Spurt er hvort ráðherra muni beita sér fyrir því að Ísland innleiði evrópsku skaðabótatilskipunina, nr. 2014/104, til að bæta réttarstöðu einstaklinga og lögaðila sem hafa orðið fyrir tjóni vegna brota á samkeppnisreglum. Þá er einfalt svar við því: Já, við munum gera það. Umrædd tilskipun hefur þrátt fyrir aldur sinn enn sem komið er ekki verið tekin upp í EES-samninginn. Verður hún því ekki innleidd í íslensk lög fyrr en að því kemur. En þetta væri mikið umbótamál og myndi styrkja alla umgjörð samkeppnismála.

Mig langar aðeins að víkja að þeirri umræðu sem hefur tengst því sem er í stjórnarsáttmálanum um að stefnt sé að sameiningu Samkeppniseftirlitsins og Neytendastofu. Við höfum verið að vinna grunnvinnu að slíkri sameiningu en eins og ég hef sagt hér áður er alveg ljóst að engin slík sameining verður nema við sjáum að það verði til þess fallið að efla báða málaflokkana. Það er alveg skýrt í mínum huga.

Virðulegur forseti. Ég vil líka nefna að á sínum tíma beitti ég mér fyrir því að Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlit Íslands yrði sameinað og ég tel, og er ekki í nokkrum vafa um það, að það hafi styrkt verulega framkvæmd eftirlits með fjármálakerfinu og Seðlabankann sem slíkan. Aðskilnaðinn sem átti sér stað á þessum málaflokkum tel ég ekki hafa verið til bóta og hafi m.a. orsakað það að eftirlit með fjármálakerfinu var ekki nægjanlegt. En varðandi þetta er alveg ljóst í mínum huga að við gerum ekkert nema við teljum að það leiði til góðs.