154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

fasteignalán til neytenda.

171. mál
[15:42]
Horfa

Flm. (Ásthildur Lóa Þórsdóttir) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir að velta þessu upp. Það er mjög athyglisvert að fá þessa spurningu þar sem ég er bara orðin mjög samdauna þessu hugtaki, neytandi, og velti ekkert endilega fyrir mér lögskýringunum á því sem slíku dagsdaglega. Þetta kom kannski svolítið vel á vondan. Það er talað um neytendur þegar ekki er um fyrirtæki að ræða. SKEL, sem nýverið keypti 90 íbúðir, er ekki neytandi, það er fyrirtæki. Neytendur eru einstaklingar. Þeir eru bara fólk, ég, þú, hver annar, sem nýtur ekki neinna forréttinda sem fjárfestar, fagfjárfestar eða nokkuð annað. Þetta er bara venjulegt fólk. Það er bara þetta samheiti yfir það. Ég nota líka mikið orðið heimilin í sama skilningi, nema neytandi er meira eins og einstaklingur, heimili er eins og safn neytanda. Það má kannski orða það þannig. Ég vona að ég hafi svarað þessari spurningu.