154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

fasteignalán til neytenda.

171. mál
[15:46]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásthildi Lóu Þórsdóttur fyrir framsöguna. Ég er meðflutningsmaður á þessu máli, frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fasteignalán til neytenda. Ég tel að hér sé um mikilvægt frumvarp að ræða. Það er mikilvægt til að koma í veg fyrir fjármálavæðingu fasteignamarkaðarins sem er búin að eiga sér stað undanfarin ár og áratugi.

Ég tel að hér sé um mjög hófsamt frumvarp að ræða. Ef við skoðum 1. gr. kemur þar fram, með leyfi forseta:

„Ef neytandi er þinglýstur eigandi tveggja eða fleiri fasteigna sem eru skráðar sem íbúðarhúsnæði skal hámark veðsetningarhlutfalls skv. 1. mgr. vera 50% fyrir þá þriðju og lækka um tíu prósentustig fyrir hverja íbúð til viðbótar.“

Þannig að hver einstaklingur getur átt tvær íbúðir og það eru engar hömlur á veðsetningarhlutfalli.

Svo er einnig í 2. gr.: „Þó er óheimilt að taka mið af væntum tekjum af útleigu íbúðarhúsnæðis …“ Hér erum við að reyna að stemma stigu við þeirri leiguliðavæðingu samfélagsins sem hefur átt sér stað frá allt frá hruni þegar kemur að íbúðarhúsnæði.

Mig langar aðeins að fjalla nánar um þá fjármálavæðingu sem hefur átt sér stað. Eins og kemur fram í frumvarpinu og kom í ræðu framsögumanns eru 10.710 íbúðir, eða sem nemur 7% af öllu íbúðarhúsnæði í landinu, í eigu einstaklinga sem eiga fleiri en tvær íbúðir. Það eru tæplega 11.000 íbúðir sem eru í eigu einstaklinga sem eiga fleiri en tvær íbúðir. Þetta er mjög athyglisvert. Skoðum það að íbúðarhúsnæði er stærsta eign langflestra landsmanna. Þarna er eins konar lífeyrissjóður þeirra og þetta er stærsta eign þeirra.

Þegar ég tala um fjármálavæðingu, hvað á ég við? Jú, það sem ég á við þar er að það er verið að fjárfesta í íbúðarhúsnæði. Fjársterkir einstaklingar og fyrirtæki eru að fjárfesta í íbúðarhúsnæði til að ávaxta fé sitt. Þeir eru ekki að gera það til að búa í húsnæðinu. Það er grundvallarmunur þar á. Þeir eru að ávaxta fé sitt með þeim hætti að þeir stóla á það að íbúðaverð fari hækkandi, að verðhækkun á íbúðarhúsnæði sé meiri en verðbólgan og þeir geti ávaxtað fé sitt í íbúðarkaupum, meira heldur en þeir geta fengið á hlutabréfamarkaði eða skuldabréfamarkaði eða í öðrum fjárfestingum sem þeir kjósa að velja, eins og í góðmálmum eða hvernig sem þeir vilja ávaxta fé sitt. Þeir eru ekki að gera það til þess að búa í húsnæðinu. En það er tilgangur íbúða. Tilgangur húsnæðis er að veita fólki húsaskjól, ekki að ávaxta fé.

Það hefur gerst á undanförnum árum og áratugum í hinum vestræna heimi og á Íslandi líka að einstaklingar eru að nota fasteignamarkaðinn og íbúðarkaup til að ávaxta fé sitt. Þetta leiðir til þess, eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, að það kemur óeðlileg verðmyndun, bólumyndun á húsnæðismarkaði og það leiðir til skorts á framboði á húsnæði fyrir venjulegt fólk. Eins og kemur fram í greinargerðinni líka eru dæmi um að fjárfestar hafi yfirboðið fyrstu kaupendur og fólk sem er í leit að húsnæði til eigin nota og dregið þannig úr möguleikum venjulegs fólks til að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Markmið þessa frumvarps er að auðvelda fólki að koma sér upp þaki yfir höfuðið, að við fyrstu íbúðarkaup sín sé það ekki að lenda í samkeppni við fjársterka einstaklinga sem hafa annan tilgang en að ætla að búa í því húsnæði. Að sjálfsögðu eiga íbúarnir, þeir sem ætla að kaupa sér húsnæði til að búa í, að njóta forgangs, hafa forskot á fjársterka aðila. Það er grundvallaratriði. Og ég tel að þetta hófsama frumvarp sé gott skref í þá átt.

Ég held að afleiðingarnar af þessari fjármálavæðingu húsnæðismarkaðarins séu mjög alvarlegar. Það er ekki bara á Íslandi. Við getum séð t.d. Kína í dag. Kína er í efnahagskreppu. Af hverju er það? Jú, það er út af húsnæðismarkaðnum. Það er búið að byggja þar heilu borgirnar. Þeir segja að þar sé tómt íbúðarhúsnæði fyrir það sem jafngildi 64 milljónum manna, að heilt Frakkland gæti búið þarna inni. Það er af því að það er búið að fjármálavæða íbúðamarkaðinn. Fólk var að kaupa sér íbúðir, leggja fé í íbúðarkaup, ekki í þeim tilgangi að búa þar heldur vissi það að verðið myndi hækka og það gæti selt aftur og hagnast þannig á því. Núna er þetta helsta efnahagsveldi heimsins í stórkostlegum erfiðleikum.

Hrunið 2008, það má rekja beint til alvarlegs markaðsbrest og fjársvika á bandarískum húsnæðismarkaði í svokölluðum „sub prime“-lánum. Ég er ekki alveg með íslenska orðið á hreinu — jú, undirmálslán heitir það. Sú spilaborg hrundi heldur illilega 2008. Það byrjaði með hruni leyfa Lehman-bankans og svo hrundi spilaborgin á Íslandi líka. Ísland var reyndar ekki þátttakandi í því en þetta hafði gríðarlegar afleiðingar fyrir fjármálamarkaði heimsins og það má rekja beint til húsnæðismarkaðarins. Bankakreppuna í Skandinavíu, sem varð upp úr 1990, má reka rekja til verðfalls á húsnæði, þegar bólumyndun varð á húsnæðismarkaði þar. Þetta var fyrir og fram yfir 1990. Þá hrundi skandinavískur bankamarkaður út af verðfalli á íbúðum sem má rekja til fjármálavæðingar. Við erum að tala um mjög stóran og mikilvægan málaflokk sem er gríðarlega mikilvægt að sé stýrt með þeim hætti að notendur húsnæðisins hafi forgang og að íbúðir séu fyrst og fremst fyrir fólk, ekki fyrir fjárfesta.

Ég þekki t.d. að ef þú átt þrjár, fjórar íbúðir í Noregi er skattlagning á leigu á þinni aðalíbúð, „primary“ íbúð, fyrstu íbúð, mun lægri heldur en skattlagning af leigu á annarri og þriðju íbúð. Ég tel að Ísland ætti að taka upp svipaðar reglur, þ.e. að þeir fjársterku einstaklingar sem eru að kaupa íbúðir eingöngu til útleigu borgi hærri skatt en aðrir af tekjum af íbúðarleigu. Ég held að það væri vert að skoða þetta enn nánar. Þetta er vandamál sem er um allan hinn vestræna heim og við eigum eftir að súpa seyðið af því hvernig þetta fer í Kína. Og við sjáum gríðarlegt verðfall í Svíþjóð og líka í Bretlandi. Það tengist reyndar líka framboðshliðinni.

Ég tel síðan mjög mikilvægt að draga úr hagnaðardrifinni eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði í þágu þeirra sem sækjast eftir íbúðarhúsnæði til eigin nota og að þannig sé unnið gegn neikvæðum áhrifum af takmörkuðu framboði íbúðarhúsnæðis, sé miðað við ætlaða íbúðaþörf og mannfjöldaþróun. Þar hefur stjórnvöldum algerlega mistekist. Þeim hefur algerlega mistekist að sjá til þess að það sé nægur fjöldi af íbúðum til að mæta þeirri gríðarlegu fólksfjölgun sem á sér stað. Þetta hefur leitt til þess að fjársterkir einstaklingar sjá færi á að fjárfesta í íbúðum vegna þess að það er meiri ávöxtun af verðhækkunum á íbúðum. Það er meiri ávöxtun líka af því að leigja íbúðarhúsnæði heldur en er á almennum hlutabréfamarkaði eða á verðbréfamarkaði.

Það mætti alveg halda heila ræðu um verðfall á íbúðum. Sagt er um íbúðaverð að „prices are sticky“ þegar þau falla seint en þegar það gerist verður til spírall sem getur haft afleiðingar á allt bankakerfið. Það er allt öðruvísi þegar það er verðfall á hlutabréfum. Það er bara tala. Eigandi hlutabréfsins sér bara að verðgildi hlutabréfsins hefur lækkað. Hann getur náttúrlega alltaf selt sig út. Hann þarf ekki að selja ofan af sér þegar hann selur hlutabréf á lægra verði. En þegar venjulegt fólk er að selja íbúðir sínar á lægra verði en skuldirnar eru þá erum við í slæmum málum, þegar menn eru með neikvæða eignastöðu í húsnæði sínu.

Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt mál og vonast til að það fái góða meðferð í efnahags- og viðskiptanefnd.