154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

fasteignalán til neytenda.

171. mál
[16:05]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Það að vera með verðtryggingu og taka og bjóða upp á verðtryggð lán, er í rauninni ákveðið veðmál. Viðkomandi er í rauninni að veðja á að launaþróun og/eða þróun á húsnæðisverði haldi í við verðbólguna sem hingað til hefur alltaf verið veðmál sem hefur heppnast. Þegar fólk segir að lánið hafi endað ferfalt, eða hvað sem það er, sé búið að aukast um heilan helling, þá er það í verðlausari krónum. Það eru fleiri verðlausar krónur heldur en þær voru þegar lánið var tekið. Jafnvel er samt búið að greiða niður lánið hlutfallslega en ekki bara af því að krónurnar eru orðnar fleiri og verðlausari. Eins og ég segi hefur veðmálið yfirleitt heppnast hérna á Íslandi en það hafa komið tímabil þar sem þetta veðmál virkar ekki, þar sem verðbólgan varð það mikil að hún braut þennan múr og kom fólki í gríðarleg vandræði. Það er einmitt einkenni þess að stunda veðmál að stundum heppnast ekki veðmálið og þá tapar fullt af fólki. Það er meira að segja kannski af þeirri ástæðu frekar en þeirri kerfislægu að við ættum ekki að vera með verðtryggð lán. En fyrir mig dugar kerfislæga ástæðan, þ.e. að mælitækið á ekki að mæla sjálft sig. Það býður upp á vítahring í efnahagskerfinu sem er bara mjög erfitt að glíma við. Eins og er skellur skuldin af þeim vítahring einmitt á neytendum.