154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

fasteignalán til neytenda.

171. mál
[16:10]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Það var mjög áhugaverð umræða hér um verðtryggingu og verðbólgu, að ég tali nú ekki um stýrivextina. Verðtrygging á húsnæðislánum í þeim mæli sem er á Íslandi eyðileggur eiginlega allt kerfið. Stýrivextir bíta ekki á verðtryggðu lánin og þar með ekki á bankana þar sem bankarnir bera ekki verðbólguáhættu heldur lántakendur. Það eru þeir sem verða harðast úti út af verðbólgunni. Svo þegar Seðlabanki Íslands ætlar að hækka stýrivexti til að berja niður verðbólguna hefur það ekki áhrif á bankana af því að þeir eru með svo mikið af verðtryggðum lánum. Það hefur bara að hluta til áhrif á bankana, í þeim mæli sem þeir eru ekki með verðtryggð lán.

Við sáum sambærilegt mál þegar við vorum með ólöglegu gengistryggðu lánin. Þá var verið að hækka stýrivexti upp í 12, 13%, ef ég man rétt. Það skipti engu máli fyrir bankana, af því að stór hluti húsnæðislánanna og eiginlega öll bílalánin voru gengistryggð, bundin við annan gjaldmiðil. Það skipti engu máli þótt íslenska krónan hryndi niður úr öllu valdi, þau voru alltaf tryggð gagnvart genginu.

Þetta frumvarp sem hér er til umræðu er til þess fallið að draga úr verðhækkunum og draga úr því að fjársterkir aðilar verði ráðandi á íbúðamarkaði. Þetta er til að setja hömlur, ekki miklar hömlur heldur litlar hömlur. Það er gert með því að hámark veðhlutfalls skuli vera 50% fyrir þriðju íbúð og svo stiglækkandi, 10% fyrir hverja íbúð til viðbótar. Þetta er því mjög hógvær tillaga.

Annað sem er farið fram á hér líka er að óheimilt sé að taka mið af væntum tekjum af útleigu íbúðarhúsnæðis. Það er einfaldlega verið að segja að ef þú ætlar að kaupa húsnæði til að leigja þá má ekki við lánveitinguna taka mið af þeim tekjum sem þú getur fengið af útleigunni. Að það sé gert í dag, að fjársterkir aðilar geti keypt nánast endalausan fjölda af íbúðum, leiðir til aukinnar eftirspurnar sem leiðir til enn meiri hækkunar. Og viti menn, stærsti liðurinn í verðbólgunni undanfarin misseri og yfirleitt á Íslandi er húsnæðisliðurinn. Þetta frumvarp leiðir óbeint til þess að hamla vexti verðbólgunnar vegna íbúðarhúsnæðis, sem ætti auðvitað ekki að vera inni í verðbólgumælingum vegna þess að kaup á húsnæði er fjárfesting, það er ekki neysla. Hins vegar er leiga á húsnæði neysla og hún ætti að vera inni.

Svona er þetta á Íslandi. Við í Flokki fólksins höfum barist gegn verðtryggingunni eins og hér hefur komið fram og það mun koma sá dagur að það verður ekki verðtrygging á húsnæðislánum. Samningsfrelsi ætti ekki að eiga þarna við, almannahagsmunir bjóða ekki upp á það. Við fáum ekki alvörufjármálakerfi fyrr en við erum búin að taka verðtrygginguna af húsnæðismarkaði. Þá fara stýrivextirnir að virka. Það er ósanngjarnt að höfuðstólshækkanir vegna verðtryggingar geti komið í bakið á fólki, eins og þeir hafa verið að gera ár eftir ár. Það er verið að hækka höfuðstól á láni sem var tekið kannski fyrir fimm, sex, sjö, átta árum. Þegar maður talar við erlenda aðila skilja þeir þetta ekki. Það er raunverulega verið að taka nýtt lán, af því að það er verið að breyta höfuðstólnum. Það er miklu betra að vextir hækki til framtíðar þegar verðbólgan er, að það séu breytilegir vextir, fljótandi vextir. Seðlabankinn hækkar stýrivexti og svo koma bankarnir á eftir, þegar skilmálarnir leyfa, og hækka vexti í samræmi við stýrivexti til framtíðar. Þá veit einstaklingurinn það. Það er ekki verið að segja við hann: Heyrðu, við ætlum að hækka höfuðstólinn þinn af því að á síðasta ári var 10% verðbólga og við ætlum að hækka lánið þitt um 10%. Það er bara verið að taka eignamyndun af fólki. Það að einstaklingar beri ábyrgð á verðbólguáhættu í lánaviðskiptum við bankana er alveg stórfurðulegt.

Það er gott að skoða þetta frumvarp, eins og kom fram í andsvörum, í samhengi við verðtryggingu og verðbólguna og það einnig að fjársterkir aðilar á húsnæðismarkaði skapa óstöðugleika. Það er ekki verið að kaupa húsnæði til að búa í því, það er verið að kaupa húsnæði til að ávaxta pund sitt. Ef þú átt peninga á Íslandi, og í heiminum, þá ættirðu að kaupa hlutabréf eða kaupa ríkisskuldabréf eða góðmálma eða hvað annað. Af hverju? Ef þú kaupir hlutabréf ertu að setja peninga inn í atvinnulífið, auka verðmætasköpun. Þú getur sett þá í hátæknifyrirtæki en ekki í húsnæði sem framleiðir ekki neitt. Það er engin framleiðsla í íbúðarhúsnæði í sjálfu sér, það er húsaskjól fyrir fólk, eitt af grunnatriðum í öllum samfélögum.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa þetta lengra en ég vonast til að þetta mál fái góða meðferð í nefnd og ég tel að þetta sé mál sem ætti að skoða enn þá frekar og jafnvel að líta á skattahlutann líka eins og kom fram í fyrri ræðu minni.