154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

almannatryggingar.

111. mál
[16:54]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Það er gott að gleyma ekki einu ári, árið 2022 var þetta á núlli. Það var engin kjaragliðnun þá af því að launaþróun var þá lægri en verðbólguþróun og verðbólgan var leiðrétt innan árs. Það er einmitt það sem mig langaði til að ræða við hv. þingmann sem nefndi það að ef t.d. verðbólguþróunin verður á þann hátt á næsta ári að hún verður umfram spár, að þá kannski í maí eða eitthvað svoleiðis, þegar á að leiðrétta það um mitt ár, muni hv. þingmaður krefjast þess að sú breyting verði gerð afturvirk frá upphafi árs. Þetta er meðaltal árs sem við erum að tala um hérna þannig að breytingin sem er gerð um mitt ár mun verða gerð þannig að hún miðar einmitt við meðaltal árs. Þegar það er sett í fjárlög þá kemur hækkunin strax fram 1. janúar, í rauninni áður en verðbólguþróunin fyrir það ár byrjar, þannig að viðkomandi hópur, lífeyrisþegar, fær hækkun ársins áður en verðbólgan étur síðan upp þá hækkun smám saman yfir árið. Í lok ársins, ef allt hefur farið samkvæmt spám, ættum við að vera komin aftur á núllið miðað við verðbólguþróun og þá þarf nýja hækkun. En ef verðbólguþróunin er meiri, umfram verðbólguspár, þá gerist það fyrr á árinu og þá þarf að hækka miðað við það en ekki frá upphafi árs, sem sagt miðað við meðaltal ársins. Það er það sem hefur verið gert undanfarin tvö ár, það hefur verið lagfært miðað við meðaltal ársins eins og kemur fram hérna í töflunni, en árið 2022 var 0% kjaragliðnun.