154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

almannatryggingar.

111. mál
[16:59]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Frú forseti. Nei, ég ætla að vera ósammála hv. þingmanni þarna. Það á ekki að gera þetta eins af því að þarna þurfum við aðeins að skoða hvað er bætt eftir á og hvað er hækkað fyrir fram. Almennt séð er lífeyrir almannatrygginga hækkaður fyrir fram en á undanförnum tveimur árum var hann líka bættur eftir á. Það þarf að hafa á hreinu hver munurinn þarna er. Það var byrjað á að hækka fyrir fram. Sú spá stóðst ekki og það var lagað um mitt ár. Sú spá stóðst ekki einu sinni þannig að það var lagað eftir á í fjárlagafrumvarpi næsta árs, grunnurinn var hækkaður upp í meðaltal ársins. Það var bæði löguð kjaragliðnunin sem hafði orðið, þar var að vísu ekki afturvirk hækkun um einhverja mánuði heldur bara hækkað frá þeim tíma, en svo var líka hækkað miðað við spána fyrir næsta ár. Þannig að það er fyrirframhækkun sem er í lífeyri almannatrygginga en verðbólgan sem hv. þingmaður var að tala um varðandi fjárheimildir stofnana er eftiráhækkun. Við þurfum að gera greinarmun þarna á milli til þess að átta okkur á því hvernig fjárheimildirnar eru að þróast.