154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

kosningalög.

6. mál
[17:30]
Horfa

Flm. (Sigmar Guðmundsson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Stefáni Vagni Stefánssyni fyrir að eiga við mig orðastað um þetta. Ég ætla reyndar alveg að játa það að hafi það komið þannig út hjá mér að ég hafi sérstaklega verið að tilgreina að þessi tiltekna umsögn, sem hv. þingmaður nefnir hér til sögunnar og les upp úr, hafi átt að vera einhver sérstakur jákvæður stuðningur við þetta mál þá var það ekki ætlunin að taka hana út þannig, þetta var bara einn af þeim umsagnaraðilum sem ég nefndi. En það getur vel verið að ég hafi orðað þetta eitthvað klúðurslega. Ég var fyrst og fremst að vitna og vitnaði mest til þess sem kom frá Mannréttindaskrifstofu Íslands og svo vitnaði ég líka mikið til þess sem kom frá Ólafi Þ. Harðarsyni og Þorkeli Helgasyni en ætlaði ekkert að vera að reyna að setja Skagfirðinga undir einhvern annan hatt en þeir vilja sjálfir vera undir. Það var alls ekki þannig.

Bara svo ég árétti: Mér finnst mjög mikilvægt að við tökum alvöruumræðu um þetta hérna í þingsal og í þingnefnd vegna þess að við erum auðvitað annars vegar með bara hrein og klár mannréttindi fólks. Við erum með þetta mikla misvægi sem er á milli landshluta hérna á Íslandi sem er miklu meira heldur en í löndunum í kringum okkur, miklu meira heldur en viðmið Feneyjanefndarinnar kveða á um. Svo erum við hins vegar auðvitað með þennan mikla vilja sem hér er á Íslandi til að passa vel upp á það að geta haldið byggð úti um landið allt og eflt hinar dreifðari byggðir landsins. Ég er ekkert endilega viss um að það sé erfitt að gera þetta eins og ég var að rekja aðeins í minni ræðu. Ég held að þingmenn á höfuðborgarsvæðinu vilji tala máli hinna dreifðari byggða og að við þurfum ekki að hafa þetta mikla misvægi og þetta mikla mannréttindabrot í gangi til að gæta bæði að mannréttindum og því líka að efla búsetu um landið allt.