154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

kosningalög.

6. mál
[17:32]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Nei, það var alls ekki þannig sem ég meinti það, að hv. þingmaður hefði orðað þetta eitthvað ankannalega, ég ætla alls ekki að leggja honum þau orð í munn. Hins vegar er þetta í greinargerð með frumvarpinu þar sem kemur fram að byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar hafi veitt frumvarpinu jákvæða umsögn.

Það er nú erfitt að ræða þetta risastóra mál í tveggja mínútna andsvari … (Gripið fram í.) Já eða ræðu, það er betra, það er rétt. En það sem mig langaði bara að segja og ítreka hér er að í allri þeirri vinnu sem fram undan er í þessu, hvort sem það verður tengt við þetta frumvarp eða áform ríkisstjórnarinnar, þá legg ég mikla og þunga áherslu á að það verði ekki litið fram hjá byggðasjónarmiðum í þeirri vinnu. Það skiptir okkur gríðarlegu máli að þau samfélög og þau kjördæmi sem eiga svo sannarlega undir högg að sækja mörg hver núna fái áheyrn hér og eigi fulltrúa á Alþingi Íslendinga. Það bara skiptir máli og það hefur sýnt sig æ ofan í æ í gegnum tíðina að fulltrúar þessara kjördæma eru varðmenn og gæslumenn þessara svæða og það skiptir máli. Ég er ekki að segja að kerfið eins og það er í dag sé eitthvað sem er meitlað í stein og megi ekki breyta, alls ekki. Ég er bara að benda á það og ítreka þá skoðun mína að ef farið verður í breytingar og þegar farið verður í breytingar, vegna þess að það verður klárlega gert, hvort sem það verður núna eða seinna, þá verði ekki litið fram hjá þessum byggðalega vinkli í þeirri vinnu.