154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

kosningalög.

6. mál
[17:34]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Stefáni Vagni Stefánssyni fyrir. Já, ég ætla bara að taka undir það. Ég ætla að vona að ef við berum gæfu til þess að fá svolítið góða og þroskaða umræðu um þetta hérna í þingsal og inni í þeim þingnefndum sem undir eru — þ.e. ef ríkisstjórnin sýnir á spilin, hún hefur ekki gert það enn þá þó að það sé kveðið á um þetta í stjórnarsáttmála — þá verði mjög rækilega passað upp á hvers kyns byggðasjónarmið.

Við erum ósammála um margt í þessum þingsal oft á tíðum. En ég held að við séum öll sammála um það grundvallaratriði að það sé góð og öflug byggð hringinn í kringum landið. Við viljum ekki sjá byggðunum blæða út, engum. Við höfum hins vegar örugglega áherslumun um það hvernig við hugsum um þessa hluti og þessi sjónarmið sem hv. þingmaður nefnir sérstaklega til sögunnar eiga svo sannarlega að vera partur af þessari vinnu, enda eru þau í sjálfu sér rökstuðningurinn fyrir misvæginu fyrir það fyrsta, þannig að það hlýtur auðvitað eðli máls samkvæmt að koma þannig til.

Ég ætla þá bara að nota tækifærið hér og brýna ríkisstjórnina til þess að sýna á spilin í þessari vinnu. Það er ekki nóg að setja einhver markmið á blað í stjórnarsáttmála ef síðan á ekkert að vinna áfram með það. Þetta frumvarp er auðvitað góðra gjalda vert til að hefja þá vinnu ef ríkisstjórnin vill ekki gera það sjálf með sínu eigin máli. En ég árétta það sem ég sagði hérna áðan: Jafnvel þótt menn komist ekki í þá vinnu að eða það náist ekki samkomulag um það að jafna vægi atkvæði meira eftir búsetu þá yrði alger grundvallarhneisa ef þingið gæti þó a.m.k. ekki tryggt að þingmannatala flokkanna sé í samræmi við það sem úrslit kosninga hverju sinni segja okkur til um. En auðvitað eigum við að lagfæra bæði atriðin og þá líka með þeim sjónarmiðum sem hv. þm. Stefán Vagn Stefánsson nefndi hér til sögunnar.