154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

Boðun forsætisráðherra á opinn fund um réttindi flóttafólks.

[15:07]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mér þykir leitt að þetta sé komið hingað inn í þessu formi því að það er jú afstaða meiri hluta velferðarnefndar að það sé ekki forsenda til að kalla viðkomandi á fund nefndarinnar vegna þjónustu við fólk sem hefur fengið synjun um alþjóðlega vernd. Sá málaflokkur heyrir undir aðra ráðherra í ríkisstjórn. Þeir koma til með að koma á fundi í velferðarnefnd og óskað hefur verið eftir því í allsherjar- og menntamálanefnd einnig. Við teljum það með öllu óeðlilegt að kalla forsætisráðherra til og við mótmælum því að hér sé um að ræða aðför að eftirlitshlutverki þingsins eða að þetta sé ekki í samræmi við reglur þingsins. Um það hefur verið skrifað minnisblað þar sem kemur skýrt fram að einungis eigi að boða þá ráðherra til fundar við nefndina sem hafa með málefni og framkvæmd málaflokksins að gera. Forsætisráðherra hefur ekki með framkvæmd málaflokksins að gera. Ef við ætluðum nú að tala um samhæfingu og samræmingu ríkisstjórnarinnar væri nóg að hafa bara einn ráðherra, þ.e. forsætisráðherra.