154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

Boðun forsætisráðherra á opinn fund um réttindi flóttafólks.

[15:11]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Það er áhugavert að heyra það sem hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir hafði um þetta að segja þar sem í fyrsta lagi þá heyrir þetta undir forsætisráðherra. Þegar ég spurði í nefndinni til hvaða annarrar nefndar væri hægt að kalla til forsætisráðherra til að fá svör við þessum spurningum, t.d. til þess að ræða lögfræðiálitið um þessa lagatúlkun sem hæstv. forsætisráðherra óskaði sjálf eftir um þetta mál, þá fékk ég svörin: Engrar nefndar. Við megum einfaldlega ekki fá forsætisráðherra til okkar til að ræða þetta til að fá svör við þessum spurningum vegna þess að þessi ríkisstjórn hefur bara ákveðið að hún ætli að hafa þrjár ríkisstjórnir í þessu landi. Hún ætlar ekki að skipta sér af því sem neinn annar er að gera. En þetta er ekki hægt. Þar fyrir utan er sett á fót sérstök staða í forsætisráðuneytinu sem á að hafa með höndum samræmingu í þessum málaflokki. Það er í forsætisráðuneytinu sem svörin við þessum spurningum liggja. (Forseti hringir.) Hvernig í ósköpunum eigum við að fá svör við þessum spurningum ef við getum ekki boðað þá ráðherra sem um ræðir á fundi nefndarinnar?