154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

skoðun þess að taka upp nýjan gjaldmiðil.

[15:20]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það eru allir bókstaflega að tala um krónuna þessa dagana og það skiptir ekki máli hvert við í Viðreisn fórum í kjördæmaviku, við vorum ávallt hvött áfram til að tala meira og hærra um þetta risastóra hagsmunamál heimilanna og fyrirtækjanna í landinu, þetta raunverulega jafnréttismál fyrir samfélagið. Verkalýðshreyfingin er að gefast upp á krónunni, bændur eru að gefast upp á krónunni og þeim háa fjárfestingarkostnaði sem hamlar m.a. nýliðun í greininni. Það er langt síðan að stærstu fyrirtæki landsins gáfust upp á krónunni og fóru að gera upp í erlendri mynt, skiljanlega, og fólkið okkar er að gefast upp á þessum endalausu sveiflum. Það voru skilaboðin, aftur skiljanlega, því að þetta þarf ekki að vera svona, virðulegur forseti.

Þessu hagvaxtarskeiði er nefnilega ekkert að ljúka. Það er verið að spá 6% vöxtum, alla vega til ársloka 2025. Það þýðir a.m.k. um 9% í húsnæðislánum og unga fólkið okkar er fast í þessari gildru. Ríkisstjórnin er ekki að bjóða unga fólkinu okkar og barnafjölskyldum upp á að geta fjárfest í eigin húsnæði næstu árin.

Á dögunum sagði hæstv. forsætisráðherra að upptaka evru leysi ekki öll vandamál Íslands og það þurfi að skoða málin heildstætt. Ég er sammála forsætisráðherra í því enda höfum við í Viðreisn lagt lykiláherslu á það að skoða heildarmyndina. Ég vil fagna þessu sérstaklega enda er þetta lykilforsenda fyrir því að við getum skoðað kosti og galla þess að halda krónunni eða henda henni. Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, hefur m.a. lagt það til að erlendir óháðir aðilar verði fengnir til að kanna kosti og galla við að taka upp nýjan gjaldeyri. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún vilji og sé reiðubúin til að taka boltann núna og koma á skoðun erlendra aðila sem gætu skoðað m.a. kosti og galla fyrir okkur Íslendinga við að taka upp nýjan gjaldmiðil.