154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

skoðun þess að taka upp nýjan gjaldmiðil.

[15:26]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég skal svara þessu alveg skýrt. Ég vil meina að bæði skýrsla Seðlabankans og skýrslan um framtíð íslenskrar peningastefnu séu bara mjög góður grundvöllur fyrir umræðu um framtíð gjaldmiðilsins. Ég tek ekki undir það að þessar skýrslur séu litaðar af einhverjum tengslum við hagsmunaöfl. Ég held reyndar að hv. þingmaður hafi ekki verið að segja það. Ég held að þessar skýrslur séu mjög vandaðar. Ég held að þær séu góður grunnur og ég sé ekki endilega tilganginn með því að kalla til frekari sérfræðinga til að gera nýja skýrslu. Við erum bara með gríðarlega góð gögn.

Þegar á öllu er á botninn hvolft þá snýst þetta um pólitíska ákvörðun og þetta snýst um heildstætt mat, ekki bara á gjaldmiðlinum heldur öllum hinum atriðunum sem þarna heyra undir. Við getum kallað marga sérfræðinga til. Ég hugsa að niðurstaðan yrði svipuð. Það fylgja kostir og gallar báðum leiðum þegar rætt er um gjaldmiðilinn. Það er í raun og veru bara tveir raunhæfir valkostir. Það er það sem alltaf kemur fram í þessum skýrslum. Tökum þá bara umræðuna út frá stjórnmálunum og út frá pólitíkinni. Ég skirrist ekki við það.