154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

afstaða forsætisráðherra til árásar á Ísrael.

[15:31]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra Íslands vísar í afstöðu íslenskra stjórnvalda og á þá væntanlega við færslu á Twitter, eða X, frá hæstv. utanríkisráðherra, sem var ekkert algerlega afdráttarlaus en þó gagnvart þessum tilteknu hryðjuverkum. En ég er að spyrja hæstv. ráðherra. Ég er að spyrja hæstv. forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, hvort hún fordæmi Hamas-samtökin og hryðjuverkaárás þeirra á Ísrael og þá sem styðja eða afsaka þessa árás. Einnig hafa fjölmörg lönd og höfuðborgir landa brugðist við með því að lýsa upp stjórnbyggingar og aðrar stórbyggingar með fánalitum Ísraels. Þetta hefur oft verið gert í gegnum tíðina, stundum kannski ekki skipt miklu máli og litið út eins og dyggðaflöggun, en þegar Þjóðverjar lýstu upp Brandenborgarhliðið í fánalitum Ísraels þá skipti það máli og flestar borgir á Vesturlöndum hafa gert slíkt hið sama. Kemur til greina að mati hæstv. forsætisráðherra að lýsa upp stjórnarráðsbygginguna í fánalitum Ísraels?