154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

ákvörðun um fordæmingu innrása.

[15:42]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Fyrst vil ég segja að það er rétt að það hefur verið hryllilegt að fylgjast með atburðum á þessu svæði undanfarna daga, hreint út sagt algjör viðurstyggð að sjá hvernig manneskjan getur hagað sér. Og til að svara spurningu hv. þingmanns skýrt og skorinort þá er það kjarni utanríkisstefnu Íslands að fordæma hryðjuverkaárásir. Þar af leiðandi hef ég, eðli máls samkvæmt, fullt umboð til að gera það fyrir hönd íslenskra stjórnvalda.

Hins vegar er það ekki rétt að sú sem hér stendur hafi ekki tjáð sig um málefni Palestínu, hryllilega stöðu á svæðinu í marga áratugi. Það hef ég gert margoft. Við, í gegnum okkar þróunarsamvinnu og utanríkisþjónustu, styðjum við þá stofnun Sameinuðu þjóðanna sem er sérstaklega með málefni Palestínu á sínu borði. Ég er reyndar nýbúin að undirrita nýjan rammasamning þess efnis þar sem við aukum fjárframlag til þeirrar stofnunar. Ísland er land sem styður og hefur lýst yfir sjálfstæði Palestínu og styður tveggja ríkja lausn á svæðinu en það er eðli og inntak utanríkisstefnu Íslands að fordæma hryðjuverkaárásir. Það sem ég hef auðvitað áhyggjur af er sú stigmögnun sem nú á sér stað; hvort átökin breiðist frekar út, hvernig þau verði stöðvuð og hvað gerist næst.

Hins vegar er það hárrétt hjá hv. þingmanni að það er erfitt að geta byrjað að reyna að setja sig í spor þess fólks sem hefur alist upp á þessu svæði. Þetta eru orðnar margar kynslóðir (Forseti hringir.) þar sem vonleysið er mikið og alþjóðasamfélagið hefur ekki haft burði til að leita lausna (Forseti hringir.) þannig að fólk geti lifað í sátt og samlyndi.