154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

framkvæmd samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.

[15:51]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Já, og það er einmitt rétt að taka fram að við höfum þegar hafist handa og það hafa ákveðnar framkvæmdir þegar litið dagsins ljós. En til að vera alveg sanngjörn þá skulum við líka muna það að hluti af þeim framkvæmdum var ekki á svokölluðum frestunarlista í því samkomulagi sem hæstv. ráðherra vísar í. En ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur að hafa það í huga að þegar svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins var samþykkt árið 2015 þá gerðum við ráð fyrir því að fjölgunin á þessu svæði til ársins 2040 yrði 70.000. Það er held ég ljóst að við gætum verið að horfa fram á tvöfalda þá fjölgun núna því að okkur fjölgar svo ofboðslega hratt og það á þessu svæði. Það sýnir okkur hversu ofboðslega brýnt það er að ráðast í samgöngubætur hér á þessu svæði. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að það var mikilvægt að hugsa út fyrir boxið og setja þetta í þann farveg sem við gerðum með samgöngusáttmálanum og Betri samgöngum. Aftur á móti velti ég því fyrir mér hvort það geti verið svo að í ljósi þess að þetta er félag sem er á markaði (Forseti hringir.) og þurfti að fara í endurskoðun á kostnaðinum — það er alveg ljóst að við getum ekki keyrt framkvæmdir áfram án þess að vita hvað þær raunverulega kosta — hvort við getum búist við því að það sé jafn mikil vanáætlun í öðrum framkvæmdum sem til að mynda er að finna í samgönguáætlun?