154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

Ráðstöfun söluágóða af ríkiseignum til fjárfestinga í mikilvægum innviðum.

[16:22]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Málshefjandi lagði upp með það að tala um ráðstöfun söluágóða af ríkiseignum til fjárfestinga í mikilvægum innviðum. Ég verð að taka undir með þeim sem finnst þetta vera sérstakt upplegg í umræðu hér. Það hefur líka verið talað um að losa um eignarhald í rekstri sem ríkið þarf ekki að vera í.

Frú forseti. Þetta eru risastórar pólitískar spurningar sem snúa að því hvernig samfélag við viljum reka og það er ekki eitthvað eitt sem gildir um öll svið samfélagsins. Við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði höfum lagt áherslu á að það eru mjög margar stofnanir og mikill rekstur sem ríkið er í sem er mikilvægur fyrir fólkið í landinu, sem er mikilvægt að sé í opinberri eigu og í opinberum rekstri. Ríkisstjórnin hefur m.a. farið í það að kaupa mikilvæga innviði eins og Auðkenni og sæstrenginn ÍRIS og fleira sem eru mikilvægir samfélagslegir innviðir sem eiga auðvitað að vera í opinberri eigu. Mér finnst ekkert annað en skynsemi í því að húsnæði fyrir rekstur ríkisins sé líka í eigu hins opinbera, enda stendur ekkert til að fara að leggja þann rekstur niður, en auðvitað þarf að sinna viðhaldi.

Frú forseti. Mig langar að nefna það að í nýlegri skýrslu Vörðu – rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins kom fram að staða og heilsa sérstaklega kvenna sem eru að vinna við ræstingar er á öllum mælikvörðum slæm. (Forseti hringir.) Mér finnst að við ættum að vera að ræða það hvort hið opinbera ætti jafnvel að taka til sín aftur verkefni sem hefur verið útvistað (Forseti hringir.) með kjör samfélagsins fyrir augum. Mig langar að stinga því inn að ég held að það gæti bara verið dæmi um mjög góða kynjaða hagstjórn vegna þess (Forseti hringir.) að það snýst um sparnað til langs tíma í heilbrigðiskerfi og félagslega kerfinu.

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða ræðutíma sem er takmarkaður.)