154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

Ráðstöfun söluágóða af ríkiseignum til fjárfestinga í mikilvægum innviðum.

[16:45]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Það voru töluvert meiri tilfinningar í henni en ég bjóst við en það er nú bara eins og það er. Þetta er mikilvæg umræða að taka. Ég lagði einmitt áherslu á það í mínu innleggi að nefna þær eignir sem væri hagkvæmt fyrir ríkið að losa sig við af því að þær væru að auka áhættuna og væru ekki að borga mikinn arð til ríkisins — og ég tók þar sérstaklega dæmi — og setja það einmitt í innviði sem eru þjóðhagslega mikilvægir. En ég var ekki að leggja til að selja þjóðhagslega mikilvæga innviði, alls ekki. Einmitt þeir innviðir sem ég lagði til, eins og samgöngur, betri samgöngur, þær eru taldar eitt besta jafnréttistól sem hægt er að gera. Það eykur jafnrétti hvað mest.

Ég tel að við höfum verið að fara inn á allar þessar megináherslur sem hafa komið hérna fram. Ég kannast ekki við það sjálfur að hafa nokkurn tímann sett á dagskrá sölu grunninnviða eins og Landsvirkjun og það hefur ekki verið heldur á dagskrá hjá Sjálfstæðisflokknum. Það voru ótrúlega margir sem komu inn á það en það hefur ekki verið hér til umræðu. Við höfum samt marga góða sögu að segja í þessu. Við höfum verið, eins og kom fram hjá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, að losa um eignir í fjármálafyrirtækjum sem eru á við heilan Landspítala. Þar er bara þessi beina tenging á milli. Salan á Landssímanum á sínum tíma var hér nefnd og alltaf talað um það eins og það hafi mistekist en þar fengum við mikla fjármuni fyrir kerfi sem er búið að úreldast, held ég, þrisvar sinnum síðan þá. Það hefði verið verðlaust kerfi í dag. Það er enginn að nota koparinn lengur. Það er búið að byggja upp ljósleiðara, 3G og núna 4G og 5G á leiðinni. Sem betur fer seldum við það og fyrir vikið er fjarskiptasamband á flestum heiðum landsins og þjóðvegum sem var borgað fyrir með Símapeningunum og ríkissjóður (Forseti hringir.) skuldaði minna þegar efnahagshrunið kom. Svona mætti lengi telja. En ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu.