154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu.

238. mál
[16:50]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, á þskj. 241. Frumvarpið var lagt fram á síðasta löggjafarþingi sem frumvarp til laga um Mennta- og skólaþjónustustofu en náði ekki fram að ganga. Frumvarpið er nú lagt fram bæði með breyttu heiti og í breyttri mynd. Breytingarnar felast einkum í því að skýra verkefni nýrrar stofnunar, m.a. með hliðsjón af umsögnum sem bárust allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis við vinnslu málsins á síðasta þingi. Þá hafa verið gerðar breytingar sem eiga að styðja við samvinnu stofnana á málefnasviðinu.

Virðulegi forseti. Frumvarp þetta er einn liður í heildstæðri stefnumótun sem er bæði tengd menntastefnu til 2030 og innleiðingu sem tengd er farsæld barna sem hefur verið unnið að í ráðuneyti mínu í samstarfi við þingmannanefnd um málefni barna og stýrihóp Stjórnarráðsins í málefnum barna og í víðtæku samráði við sveitarfélögin, félagasamtök og fagfólk, foreldra og börn. Farsæld barna felst í menntun þeirra og tekur þessi vinna öll mið af gildandi menntastefnu til ársins 2030 sem samþykkt var sem þingsályktun hér á Alþingi og unnin í víðtæku samráði við hagsmunaaðila.

Í menntastefnunni felast margar aðgerðir sem eiga að styðja við framúrskarandi menntun alla ævi. Þar á meðal eru áform um heildstæða skólaþjónustu sem styður við nám og farsæld barna og ungmenna, en undirbúningur nýrra heildarlaga um skólaþjónustu stendur nú yfir. Þá er unnið að umbótum á sviði námsmats og námsgagna, auknum stuðningi við nemendur með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn svo einhver dæmi séu nefnd. Í ráðuneyti mennta- og barnamála er jafnframt unnið að aðgerðum sem koma fram í þingsályktun um Barnvænt Ísland – framkvæmd barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þar á meðal er aukin áhersla á aðgengi að upplýsingum um stöðu og líðan barna og ungmenna og greiningu á þeim. Í því skyni hefur innan ráðuneytis mennta- og barnamála verið unnið að mælaborði á landsvísu sem birti upplýsingar sem hafðar verði til hliðsjónar við forgangsröðun eða fjármögnun verkefna og stefnumótun stjórnvalda.

Virðulegi forseti. Menntamálastofnun var stofnuð á grunni Námsgagnastofnunar og Námsmatsstofnunar. Til viðbótar við þau verkefni sem stofnanirnar sinntu voru ýmis stjórnsýsluverkefni flutt til nýrrar Menntamálastofnunar sem voru áður hjá þáverandi mennta- og menningarmálaráðuneyti, þar á meðal að safna, greina og birta upplýsingar um menntamál og að hafa eftirlit með og meta árangur af skólastarfi. Bæði í aðdraganda lagasetningarinnar um Menntamálastofnun og í skýrslum sem unnar hafa verið um stofnunina hefur verið bent á ákveðna veikleika í grundvelli hennar. Unnar hafa verið tillögur að breytingum á hlutverki stofnunarinnar og verkefnum sem væru í betra samræmi við stefnumótun í menntamálum til lengri tíma. Meðal annars hefur verið bent á að leggja þurfi áherslu á víðtækt forystuhlutverk stofnunarinnar varðandi skólaþróun og hlutverk hennar við að veita skólakerfinu ráðgjöf. Ákall hefur verið um aukinn stuðning við skólakerfið frá stofnunum ríkisins á sviði menntamála, m.a. til að stuðla að sömu tækifærum til náms um allt land.

Virðulegi forseti. Frumvarpi þessu er ætlað að bregðast við þessari stöðu. Það felur í sér heildarlög um nýja stofnun, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, brottfall laga um Menntamálastofnun og breytingar á ýmsum lögum á sviði menntamála. Nýrri stofnun, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, er ætlað að vera þekkingarmiðstöð í íslensku skólastarfi. Hún verði miðlægur stuðningur við framkvæmd og þróun skólastarfs á grundvelli bestu mögulegu þekkingar og stuðli þannig að betri menntun hér á landi.

Í frumvarpinu er fjallað um verkefni Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu í fjórum liðum en jafnframt er sérstaklega tekið fram að stofnunin, undir yfirstjórn ráðuneytisins, forgangsraði verkefnum sínum.

Í fyrsta lagi fær stofnunin það hlutverk að styðja, efla og samhæfa menntun, skólaþjónustu og annað skólastarf. Gert er ráð fyrir að verkefnum stofnunarinnar verði forgangsraðað eftir þörfum skólakerfisins, t.d. þörf fyrir sérfræðiráðgjöf í þágu einstakra nemendahópa, eins og nemenda með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.

Í öðru lagi er í frumvarpinu lagt til að Miðstöð menntunar og skólaþjónustu taki við verkefnum Menntamálastofnunar þegar kemur að námsgögnum. Ekki er gert ráð fyrir grundvallarbreytingum á þessu verkefni að svo stöddu en vinna við endurskoðun á fyrirkomulagi útgáfu námsgagna stendur nú yfir og gert ráð fyrir frekari lagabreytingum á þessu löggjafarþingi þegar niðurstaða þeirrar vinnu sem nú er í gangi liggur fyrir.

Í þriðja lagi er í frumvarpinu lagt til að Miðstöð menntunar og skólaþjónustu fái það verkefni að byggja upp og halda utan um aðferðir og úrræði fyrir skóla sem styðja við skólastarf og skólaþjónustu, þar á meðal gæðaviðmið, verkferla, verkfæri, matstæki og önnur tæki til skimana og athugana á einstaklingum eða hópum. Í þessu felst m.a. að Miðstöð menntunar og skólaþjónustu fái það hlutverk að byggja upp og halda utan um námsmat í grunnskólum, svo dæmi sé nefnt.

Í fjórða lagi er lagt til að ný stofnun styðji innleiðingu stefnumótunar stjórnvalda á sviði menntunar og farsældar barna og ungmenna og aðalnámskráa. Með því eru væntingar um markvissari eftirfylgni með stefnumótun á sviði menntamála, þar á meðal menntastefnu til 2030. Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að öll söfnun, greining og miðlun upplýsinga um börn og ungmenni á sviði mennta- og fræðslumála verði í höndum ráðuneytisins, en samkvæmt gildandi lögum annast Menntamálastofnun nú söfnun, greiningu og birtingu upplýsinga um menntamál. Eins og áður kom fram er nú unnið að því að efla verulega söfnun, greiningu og miðlun upplýsinga um allt sem tengist farsæld barna innan ráðuneytis mennta- og barnamála og tölfræði um menntun og fræðslumál er hluti af því. Með því er ætlunin m.a. að heildstæð mynd fáist af árangri breytinga sem gerðar eru í menntakerfinu.

Virkt eftirlit er mikilvægur þáttur í því að fylgja eftir gæðum skólastarfs. Í frumvarpinu er lagt til að mennta- og barnamálaráðuneyti taki alfarið við eftirliti með skólastarfi, en í núgildandi lögum er ábyrgð á eftirliti tengdum stjórnsýsluverkefnum að nokkru leyti skipt milli ráðuneytisins og Menntamálastofnunar. Innan mennta- og barnamálaráðuneytisins er hafin vinna við að endurskoða eftirlit með skólastarfi, m.a. hvort rétt sé að koma því og tengdum leyfisveitingum fyrir í eftirlitsstofnun sem eftir atvikum sinni jafnframt eftirliti með öðrum málaflokkum. Ef slíkar hugmyndir verða að veruleika munu þær kalla á frekari lagabreytingar.

Ég hef hér reifað helstu atriði frumvarpsins en ítarlegar er gerð grein fyrir verkefnum nýrrar stofnunar og flutningi verkefna í frumvarpinu. Ljóst er að verkefni Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu eru verulega frábrugðin starfsemi Menntamálastofnunar. Greiningarverkefni, ytra mat og ýmis stjórnsýsluverkefni, sem hafa verið veigamikil þáttur í starfsemi Menntamálastofnunar, flytjast til mennta- og barnamálaráðuneytisins þar sem þau verða endurskipulögð. Endurskoða þarf forgangsröðun og áherslur þegar kemur að verkefnum sem verða flutt frá Menntamálastofnun til Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu.

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu verður ný stofnun, þjónustustofnun en ekki stjórnsýslustofnun, sem byggja þarf upp frá grunni. Í frumvarpinu felst því að lög um Menntamálastofnun verða felld brott og stofnunin lögð niður. Þessar miklu breytingar leiða jafnframt til þess að hvorki er unnt að flytja störf hjá Menntamálastofnun yfir í nýja stofnun, og eftir atvikum til ráðuneytisins, með yfirtöku ráðningarsamninga, né bjóða starfsfólki forgang að nýjum störfum. Verða öll störf hjá Menntamálastofnun því lögð niður og ný störf hjá Miðstöð menntunar og skólaþjónustu og mennta- og barnamálaráðuneyti auglýst laus til umsóknar.

Hvað varðar fjárhagsáhrif frumvarpsins er gert ráð fyrir því að breytingarnar rúmist innan fjárheimilda en að uppskipting verkefna kalli á tilfærslur fjárheimilda Menntamálastofnunar til Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu og mennta- og barnamálaráðuneytis eins og nánar er gerð grein fyrir í frumvarpinu. Virðulegi forseti. Eins og ég hef komið inn á standa fyrir dyrum stórar kerfisbreytingar í skólakerfinu. Mikilvægt er að hefja uppbyggingu þekkingarmiðstöðvar á landsvísu sem tekur mið af núgildandi regluverki en er á sama tíma í stakk búin til að takast á við ný og breytt verkefni í samræmi við vilja Alþingis hverju sinni, þar á meðal þær breytingar sem kunna að felast í nýjum heildarlögum um skólaþjónustu. Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðar þeirrar er fylgir með frumvarpinu en þar er ítarlega fjallað um og gerð grein fyrir efni þess.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umræðu og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.