154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu.

238. mál
[17:03]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Já, það er mat sérfræðinga í ráðuneytinu. Eins og ég segi þá hef ég unnið þarna og þegar ég les frumvarpið þá sé ég ekki þá nauðsyn. Að fenginni reynslu þá er ýmislegt endurskipulagt í starfsemi ýmissa stofnana varðandi þjónustu og skyldur og þess háttar og ég sé ekki að það sé tilefni til að umturna stofnuninni á þetta stóran og mikinn hátt að það þurfi bara að þurrka hana út af kortinu til að byggja upp nýja stofnun. Það var nógu erfitt í rauninni að koma á fót þessari stofnun. Þar að baki voru t.d. mismunandi launakjör fólks sem kom frá Námsgagnastofnun og Námsmatsstofnun, það var alveg mjög flókið. En miðað við frumvarpið eins og ég les það, miðað við þá starfsreynslu sem ég hef úr þessari stofnun þá kaupi ég ekki þau rök að niðurstaðan sé óhjákvæmilega þessi, hver svo sem rökin eru síðan í alvörunni. Það er eitthvað sem ég sé ekki og er ekki útskýrt og mér finnst óþægilegt.