154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu.

238. mál
[17:13]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um þessar ábendingar um mikilvægi þess að efla frumkvæði og efla sköpun og að það sé grunnur hvers einstaklings sem fer í gegnum skólakerfið að við sköpum þannig hugarfar þar sem það er rammað inn, m.a. í ýmsum átaksverkefnum og fleiri þáttum sem við gerum, en sérstaklega þegar kemur að námskránni, rammað inn með hvaða hætti við sjáum fyrir okkur að eigi að vera útkoman úr hverju og einu skólastigi þegar nemandinn fer í gegnum það. Það sem okkur hefur hins vegar skort er síðan hvernig við komum því áfram frá stjórnvaldinu þegar námskráin er sett og síðan inn í hverja skólastofu, þjónustum það, bæði skólastjórnendur, kennarana, námsgögnin. Hvernig ætlum við að fylgja eftir því sem við ákveðum að eigi að vera útkoma skólakerfisins? Hvernig ætlum við að þjónusta allan skólann í daglegum verkefnum við innleiðingu á því? Það hefur verið skortur á því í íslensku skólakerfi og það erum við að leggja til hér með nýrri stofnun, að hún fái m.a. það hlutverk að vera lykilaðili í því þjónustuhlutverki. Það getur síðan tekið breytingum og mun taka breytingum og þarf að taka breytingum hverjar áherslurnar og áskoranirnar eru hverju sinni við þjónustu við skólakerfið. En þarna erum við að hugsa það heildstætt fyrir öll þrjú skólastigin, leik-, grunn- og framhaldsskóla, að þessi stofnun fái það miðlæga hlutverk að vera sá aðili sem kemur orðum í athafnir.