154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu.

238. mál
[17:21]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F):

Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða um frumvarp til laga um miðstöð menntunar og skólaþjónustu og hér er verið að mæla fyrir því í annað sinn, var gert líka á vorþingi. Í millitíðinni hefur það tekið örlitlum breytingum, jákvæðum breytingum þar sem verið er að skýra enn frekar hlutverk þessarar nýju stofnunar. Þetta frumvarp hér er einn liður og mjög mikilvægur liður þegar kemur að heildstæðri stefnumótun um farsæld barna og þarna er verið að horfa á heildstæða þjónustu þvert á skólastig þar sem við erum að ræða um leik-, grunn- og framhaldsskóla og skólaþjónustu fyrir börn allt að 18 ára og eldri. Svo má eflaust velta því fyrir sér hér hvort það gæti verið framtíðarsýn að skólaþjónustan næði einmitt líka til eldri nemenda, eldri en 18 ára, sem ég myndi telja að væri afar mikilvægt.

Nú þegar hafa verið gerðar góðar breytingar á mikilvægum stofnunum sem þjónusta börn og þeirra fjölskyldur, svo sem á Barna- og fjölskyldustofu og Ráðgjafar- og greiningarstöð, og áfram skal haldið með börnin okkar að leiðarljósi. Frumvarpið sem við ræðum hér í dag snýr að breytingum á skólakerfinu og það er ekki sjálfsprottið heldur er hér verið að svara ákalli alls staðar að af landinu og í raun má segja að skólar og skólaþjónusta og þeir aðilar sem hafa verið að sinna þessari þjónustu víðs vegar um land hafi verið að kalla eftir þessu en þörf hefur verið á aukinni þjónustu við menntakerfið. Þá helst þetta frumvarp í hendur við frumvarp til laga um heildstæða skólaþjónustu sem er í undirbúningi. Miðstöð menntunar og skólaþjónustu er ætlað að sinna verkefnum sem styðja við gæðastarf og kemur hún til með að styðja, efla og samhæfa menntun, skólaþjónustu og annað skólastarf í landinu. Við hljótum að vera öll sammála um mikilvægi þessara breytinga.

Með nýrri stofnun er verið að byggja upp aðferðir og úrræði fyrir skóla og má þar nefna gæðaviðmið, sem eru afar mikilvæg, verkferla, verkfæri, matstæki og önnur tæki fyrir skólana að nýta til að uppfylla þau skilyrði sem sett eru. Þessu hefur verið kallað eftir og ég er viss um það að margir sem starfa innan skólakerfisins muni taka þessari nýju nálgun fagnandi. En einnig er afar mikilvægt að setja á gæðaviðmið hvað varðar útgáfu námsgagna, bæði sem stofnunin getur unnið eftir og fyrir þá sem kunna að vilja gefa út námsefni.

Í dag stöndum við frammi fyrir mörgum áskorunum í menntakerfinu og í rauninni bara í samfélaginu öllu út frá breyttu landslagi og í því samhengi vil ég m.a. nefna fjölgun nemenda með annað móðurmál en íslensku og það er afar mikilvægt að horfa til þeirra þegar kemur að því hvernig námsefni við viljum bjóða nemendum upp á. En fyrir okkur sem þjóð þá skiptir máli að allir eigi jafnan rétt á menntun, því að þetta er mikið jöfnunartæki sem við höfum í skólakerfinu, og að sú menntun sé tryggð með sambærilegum hætti.

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu getur stutt við skólaþjónustu sveitarfélaga og þá aðila sem sinna skólaþjónustu og þar með starfsfólkið við að sinna og aðstoða börnin okkar og hér er að finna góð verkfæri til að breyta og auka við gæði skólakerfisins í landinu, m.a. að það séu til leiðbeinandi verkferlar fyrir skóla hvað varðar innra mat og framfylgd á því. Hérna er einmitt stofnun sem kemur til með að styðja við betri menntun á landinu öllu og á sama tíma verður til þekkingarmiðstöð sem allir geta leitað til því að öll viljum við jú sjá að börnin okkar sýni framfarir, alveg sama hvar þau eru í menntakerfinu og í lífinu öllu. Hér er verið að finna bestu leiðirnar til þess einmitt að aðstoða skóla til þess að leiðbeina börnunum okkar og starfsfólki til að ná árangri. Þannig að ég fagna þessu mikið og er alveg viss um það að með þessu þá skilum við börnunum okkar og ungmennum enn sterkari og öflugri út í samfélagið.