154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

afsögn fjármála- og efnahagsráðherra.

[13:37]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Mér finnst svo alvarlegt að hér, mjög fljótt eftir söluna á Íslandsbanka þegar var ljóst að þessi sala var bara klúður og margir ferlar voru brotnir og lög verið brotin og öll stjórnarandstaðan var sameinuð í því að kalla eftir rannsóknarnefnd, mér þykir svo alvarlegt að það var öllum tólum og tækjum og leiðum beitt til þess að stoppa það af. Þegar stjórnarandstaðan vildi sinna sínu eftirlitshlutverki var það bara stoppað. Og svo voru loforð: Nei, við við ætlum að biðja ríkisendurskoðanda að skoða þetta og ef sú rannsókn veltir ekki við öllum steinum þá getum við farið í aðrar rannsóknir. Það var augljóst þegar skýrsla ríkisendurskoðanda kom að hún var ekki fullnægjandi og það þurfti að rannsaka þetta frekar. En nei, það mátti ekki gera það. Við máttum ekki fá að skoða þetta mál betur. Við máttum ekki fá að sinna okkar skyldum sem stjórnarandstaða. Guði sé lof að við höfum umboðsmann Alþingis, í alvörunni. (Forseti hringir.) Mér finnst það ótrúlega mikilvægt að meiri hlutinn allur, þessir þrír ríkisstjórnarflokkar taki þetta til sín, þeir eru allir meðsekir í þessu, allir. Það átti að vera búið að skoða þetta fyrir löngu síðan. (Forseti hringir.) En þessi niðurstaða er komin. Ráðherra er búinn að segja af sér en ábyrgðin liggur á fleiri stöðum.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á að ræðutími er aðeins ein mínúta í fundarstjórn forseta.)