154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

afsögn fjármála- og efnahagsráðherra.

[13:43]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Stjórnarmeirihlutinn hér á Alþingi þarf að hugsa sinn gang. Í eitt og hálft ár hafa þau varið það hvernig staðið var að sölunni á Íslandsbanka. Þau hafa varið stjórnsýslu fráfarandi fjármála- og efnahagsráðherra fram í rauðan dauðann og hv. þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins heldur því áfram. Þau hafa gert allt til að beina athyglinni frá ábyrgð ráðherra sjálfs, hindrað að skipuð væri óháð rannsóknarnefnd á vegum Alþingis til að fara ofan í saumana á því sem gerðist, þau hafa leikið hvern tafaleikinn á fætur öðrum, en nú liggur fyrir svart á hvítu álit umboðsmanns Alþingis sem staðfestir, rétt eins og álit Ríkisendurskoðunar, rétt eins og skýrsla Fjármálaeftirlits Seðlabankans, að gagnrýni okkar var rétt. Hún var rétt frá upphafi. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fylgdi ekki lögum og reglum. Hann brást sínum yfirstjórnunar- og eftirlitsskyldum, gætti ekki að sérstöku hæfi sínu og auðvitað segir hann af sér, auðvitað, honum er ekki stætt á öðru. En nú þarf stjórnarmeirihlutinn allur að sýna auðmýkt og taka sig saman í andlitinu því verkefnin eru ærin.