154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

afsögn fjármála- og efnahagsráðherra.

[13:59]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Forseti. Mér finnst fyndinn þessi nýjasti talpunktur stjórnarliða. Í síðustu lotu var talað um að auðvitað þyrfti að velta öllum steinum, bara ekki þeim steinum sem þurfti í rauninni að velta til að komast að niðurstöðu í þessu máli. Nú er allt í einu einhver ómöguleiki í því hvernig sala á eignarhlut í Íslandsbanka var framkvæmd. Ég ætla að rifja upp fyrir forseta og kannski þingflokki Sjálfstæðisflokksins 2. mgr. 4. gr. laga nr. 155/2012, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra tekur ákvörðun um hvort tilboð skuli samþykkt eða þeim hafnað og undirritar samninga fyrir hönd ríkisins um sölu eignarhlutarins.“ (Gripið fram í: Lestu …)

Armslengdin er ekki meiri en svo að hann undirritar. (Gripið fram í.) Penninn er sko á enda armsins, það er ekkert lengra en það.

Í ljósi þessa lagði minni hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til rannsóknarnefnd. Það var á grundvelli þessa, vegna þess að það þyrfti að fá úr því skorið hvort samþykkt ráðherra á kauptilboði samrýmdist (Forseti hringir.) reglum stjórnsýsluréttar um sérstakt hæfi. Nú er niðurstaðan komin frá umboðsmanni Alþingis og þá allt í einu er þetta orðið að einhverjum ómöguleika í spunamaskínu Sjálfstæðisflokksins.