154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

afsögn fjármála- og efnahagsráðherra.

[14:08]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það veldur mér nokkrum áhyggjum að hlusta á hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins tala hér um ábyrgð og lög þegar kemur að sölu eignarhluta ríkisins í bönkunum. Það var árið 2012 sem ég mælti fyrir þessum lögum og þau lög eru um hvað ráðherra má gera og hvernig hann á að fara að því. Þetta eru ekki flókin lög, þetta eru fimm greinar og þar er ábyrgð ráðherrans tiltekin. Það er engin armslengd í þeim lögum, þau eru um hvað ráðherrann má gera og hvernig hann á að fara að því. Ábyrgðin er skýr samkvæmt þessum lögum og ég hef áhyggjur af því, forseti, ef þingmenn Sjálfstæðisflokksins og hæstv. ráðherra vita það ekki, þekkja ekki lögin og vilja ekki kannast við þá ábyrgð sem í þeim felast.