154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

afsögn fjármála- og efnahagsráðherra.

[14:13]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða fundarstjórn forseta á degi sem er dagur mikilla frétta. Auðvitað er það þannig að það er ekkert hægt að skrifa neitt út eða allt út og allir verða auðvitað að hafa sinn stíl, en ég verð að viðurkenna að ég hélt að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar myndu nú bregðast aðeins öðruvísi við og bera meiri virðingu fyrir þeirri ákvörðun sem hæstv. fjármálaráðherra tók. Ég vek athygli á orðum hv. þm. Óla Björns Kárasonar. Þetta er alveg skýrt og þarna vitnaði hann beint í umboðsmann. Síðan, virðulegur forseti, vegna þess að við þurfum að ræða þetta, vil ég líka vekja athygli á því að í umræðum um Bankasýsluna þegar Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, flutti það mál þá sagði hann orðrétt hér á þingi í andsvari, með leyfi forseta:

„Ég held að hv. þingmaður hljóti að sjá að það sem hér er verið að reyna að gera er akkúrat að færa málin af hinu pólitíska borði, út úr ráðuneytinu og búa til armslengd á milli stjórnmálanna, framkvæmdarvaldsins og löggjafans þess vegna, og þeirrar framkvæmdar sem þarna á að fara fram.“

Þetta eru orð fyrrverandi (Forseti hringir.) hæstv. fjármálaráðherra sem flutti frumvarpið um Bankasýsluna, (Forseti hringir.) af því að hér tala menn um að það sé verið að (Forseti hringir.) afvegaleiða umræðuna með því að tala um armslengd. Þetta er skýrt.