154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

Störf þingsins.

[14:17]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það eru auðvitað ákveðin tíðindi í pólitíkinni. Það sem gerðist í þessu máli sem við höfum verið að ræða hér í dag er að þingið virkaði. Stjórnarandstaðan virkaði og náði að knýja í gegn rannsóknir og skoðun á bankasölunni. Stjórnarflokkarnir vildu á kunnuglegan hátt sópa þessu undir teppið, eins og við þekkjum með ýmsar skýrslur, en núna liggur þetta fyrir og ummæli og viðbrögð þingmanna stjórnarflokkanna eru ekkert endilega í góðu ljósi í dag. En af þessu verðum við að læra, allt þingið og ekki síst ríkisstjórnarmeirihlutinn. Við sjáum að við afdráttarlausri niðurstöðu umboðsmanns Alþingis, sem bendir einmitt á að farið var á svig við hæfisreglur stjórnsýslulaga, bregst hæstv. fjármálaráðherra. Það er skiljanleg ákvörðun, rétt ákvörðun, skynsöm ákvörðun og hún er virðingarverð.

Mér finnst pólitíkin stundum vera svo áhugaverð. Hér í þinginu í gær, undir sérstakri umræðu um sölu ríkiseigna, benti ég á að það væri mikilvægt fyrir ríkissjóð að halda áfram sölunni á Íslandsbanka. Fjármál ríkisins gera ráð fyrir þessu til að reyna að lækka skuldir ríkissjóðs og vaxtagjöldin til að byggja upp innviði. En ég benti líka á að málið væri í ákveðinni sjálfheldu vegna þess vantrausts sem ríkir, aðallega í garð Sjálfstæðisflokksins, við sölu ríkiseigna. Sjálfstæðisflokkurinn ræður ekki við sölu ríkiseigna en við verðum samt að halda áfram sölunni á Íslandsbanka að mínu mati, m.a. til að rétta af fjármál ríkisins. Þess vegna lagði ég til í gær að málið og forræði þess yrði fært yfir til forsætisráðherra eða viðskiptaráðherra. En það sem við þurfum allra helst á að halda er að hætta að setja svona mikla orku í innanbúðarátökin við ríkisstjórnarborðið. Við verðum að átta okkur á því að erfiðar kjaraviðræður eru fram undan. Við þurfum ríkisstjórn sem virkar og er starfhæf, sem einbeitir sér að alvarlegri stöðu í efnahagsmálum og fer raunverulega að taka utan um heimilin í landinu.