154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

samgönguáætlun fyrir árin 2024-2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024-2028.

315. mál
[16:05]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar sem voru reyndar fjölmargar. Þingmaðurinn má ekki skamma mig fyrir að hafa verið ráðherrann sem kom Teigsskógi í gang. Hann fór í gang. Það er verið að leggja veginn. Hefði þingmaðurinn komið hérna upp og haldið þessa ræðu fyrir 20 árum um að ekkert væri gert á Vestfjörðum, jafnvel fyrir 15 og hugsanlega 10, þá hefði ég haft skilning á því. En við höfum sannarlega verið að gera alls konar hluti hér á síðustu árum og á þessum fyrstu fimm árum eru, held ég, 9 milljarðar að fara til uppbyggingar í vegamálum á Vestfjörðum. Það má alveg velta vöngum yfir því hvort það sé hægt að gera betur og fara þá í einhverja stærri uppbyggingu. Það verður hins vegar flókið að gera það öðruvísi en að taka þá fjármuni af einhverjum öðrum og forgangsraða framkvæmdum frá öðrum. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður er að leggja það til. Það má hins vegar alveg velta fyrir sér hvort hægt sé að skoða uppbyggingu á Vestfjörðum með einhverjum sérstökum hætti. Hér hefur verið rætt um samgöngusáttmálann, flýtiverkefni, jarðgangagerð og eitthvað slíkt. En það er auðvitað stærri umræða og þingið þyrfti að koma að þeirri forgangsröðun. En ég hef svo sem orðað þetta við þá sem hafa verið háværastir í umsögnum um nauðsyn framkvæmda á Vestfjörðum. Ég held að við höfum verið að gera nokkuð vel en ég er sammála þingmanninum að það þarf að gera enn meira. En það gildir hins vegar ekki bara um Vestfirði, það er því miður víðar á landinu sem við eigum eftir að gera talsvert meira.