154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028.

315. mál
[16:29]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir sína yfirferð hér yfir þingsályktunartillögu um samgönguáætlun. Ég byrja alltaf ræður mínar um þessa tilteknu tegund þingskjals með því segja að samgöngumálin séu stærsta velferðarmálið í mörgu tilliti. Öflugar og greiðar og góðar og öruggar samgöngur skila okkur auknum hagvexti með hagkvæmari rekstri fyrirtækja og heimila. Það er sá hagvöxtur sem gerir grundvöllinn að því velferðarkerfi sem við búum við. Öflugar og greiðar og öruggar samgöngur tryggja líka öryggi og draga úr slysum og auka öryggistilfinningu fólks, tryggja jafnrétti, eru mikilvægt byggðamál, tryggja búsetufrelsi og lengi mætti telja. Því er mjög mikilvægt að okkur takist vel til við gerð samgönguáætlunar, fjármögnun hennar og fjármögnun samgangna almennt og allt það skipulag sem þeim tengist. Það er gríðarlega mikilvægt.

Við getum kannski rætt einmitt um forgangsröðun fjármuna, hvort við höfum forgangsraðað nægilega mikið í samgönguinnviðina. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að við þurfum að ræða það hér alvarlega, af því að við erum fjárveitingavald líka, hvernig við erum að forgangsraða peningunum. Við höfum verið að forgangsraða undanfarin ár í velferðarkerfið okkar, í heilbrigðiskerfið og almannatryggingar og félagslegan stuðning og annað sem skiptir miklu máli en við þurfum líka öflugar samgöngur til að búa til meiri tekjur fyrir þau kerfi. Þannig að það er svolítið úr vöndu að ráða hjá okkur í því.

Mig langar líka til að leggja áherslu á hvað það er rosalega margt undir þegar við ræðum um samgönguáætlun og samgöngurnar. Það sem kannski fær mestu umræðuna og fer mest fyrir er vegakerfið sjálft sem er gríðarlega stórt og viðamikið. Við erum fámenn þjóð en stórt land. Inni í því eru brýrnar, allar einbreiðu brýrnar okkar og þær brýr sem eru orðnar gamlar og eru að flæða í burt eða annað slíkt. Jarðgöngin eru einnig hluti af þessu. Svo erum við með marga mjög mikilvæga vegflokka eins og tengivegina. Svo erum við með styrkvegi eða sveitarfélagsvegi eða héraðsvegi og svo náttúrlega stofnbrautirnar sjálfar. Þannig að það er strax þarna af mjög miklu að taka og svokölluð innviðaskuld úti um allt land.

Hafnirnar eru gríðarlega mikilvægar. Þar hefur tekist vel til að bæta í eftir að það varð algjört hrun í Hafnabótasjóði eftir hrun og erum við bara að komast á mjög gott ról. Vil ég fagna því og þakka fyrir að þar gengur okkur vel. Þar undir eru ekki bara hafnir, það eru líka dráttarbátar og skjólgarðar og annað slíkt. Þær hafnir sem við höfum sett fjármagn í á undanförnum árum, eins og t.d. í Þorlákshöfn, hafa sýnt hvað það fylgja mikil efnahagsleg umsvif bara strax í kjölfarið. Þetta eru alveg skýrustu dæmin um það hvernig það að fjárfesta í þessum grunninnviðum borgar sig strax.

Við erum með inni í samgönguáætlun flugvellina sem eru gríðarlega mikilvægir um allt land. Þar þarf að gera mikið grettistak í að viðhalda þeim. Nú erum við komin með varaflugvallargjald og horfir því til betri vegar. Mig langar að ræða það aðeins í þessu, og geri það bara núna, að mér þykir miður að við séum að setja fjármagn í byggingu flugstöðvar í Reykjavík sem ég held að sé hægt að gera á einkamarkaði. Ég fagna því að það sé haldið áfram að koma flugstöð af stað, það er gríðarlega mikilvægt. En ég held að önnur fasteignafélög séu tilbúin að bjóða í það að byggja þessa flugstöð og reka hana án þess að við séum að taka frá öðrum mikilvægum innviðum eins og flugvellirnir eru. Þetta þurfum við að skoða með fleiri framkvæmdir og mögulega á fleiri stöðum; með hafnarframkvæmdir og annað slíkt.

Allar almenningssamgöngur eru inni í þessu, hvort sem það er flug, ferjusiglingar eða strætó. Það er gríðarlega mikilvægt að okkur farnist vel í að byggja upp almenningssamgöngur um allt land þannig að byggðirnar njóti góðs af því og ferðamenn geti nýtt sér það og höfum við engan tíma til að bíða eftir þeirri uppbyggingu. Við höfum séð að með breyttu búsetumynstri hefur þétting byggðar skapað mikla dreifingu byggðar, þannig að íbúarnir á höfuðborgarsvæðinu fara núna alltaf lengra og lengra út í Kragann, út á Vesturland, Suðurland og Suðurnes. Mér skilst á Vegagerðinni að það sé gríðarleg aukning á notkun á strætó frá þessum kjörnum. Þannig að þetta skiptir okkur miklu máli. Svo líka bara þegar orkuskiptin eru komin í fluginu munu almenningssamgöngur í flugi verða enn mikilvægari. Við þurfum að vera tilbúin þegar þar að kemur.

Það eru sjóvarnir. Nú heyrum við mikið talað um sjóvarnir hringinn í kringum landið. Það eru nú ekki stórar fjárhæðir en ég held að við þurfum að gera vel þarna. Við erum farin að sjá íbúðarhús fara í kaf í vissum flóðum og annað slíkt. Mörg mannvirki, eins og golfvellir og annað, eru nálægt ströndinni og við verðum að gera vel í sjóvörnum.

Reiðstígarnir eru eitt sem er gríðarlega mikilvægt og þeir eru bara menningarlega sögulegir innviðir á Íslandi. Hestamannafélögin hafa gert vel þar og við gerðum bragarbót á því í síðustu samgönguáætlun og gott að það eigi að halda því áfram. Svo eru það náttúrlega virku samgöngumátarnir, hjóla- og göngustígarnir og annað slíkt.

Þetta er allt saman í sama plagginu og alls staðar er viss þörf. Við þurfum að leita svolítið leiða til þess að sjá hvernig er hægt að fara í samvinnuverkefni og einkaverkefni og fjármagna þetta og vinna þetta með aðilum til þess að ná að þjónusta þetta. Svo náttúrlega er óupptalin hjá mér öll þjónustan á vegunum og viðhaldið sem er náttúrlega í þessu og þjónustan á þessum innviðum öllum saman sem er einnig hér undir og þarf að takast á við.

Við gerðum gríðarlegt átak í tengivegunum. Við höfum rætt það mikið við gerð samgönguáætlunar og það hefur verið í áherslum ríkisstjórnarinnar varðandi Covid-framkvæmdir og fleira. Þar held ég að við þurfum meira að segja að gera enn betur. Tengivegirnir eru þar sem nú er búið að stækka; ferðaþjónustan er víða, fólk er að flytja meira út í dreifbýlið, t.d. með tilkomu ljósleiðarans og stærri vinnusóknarsvæða. Tengivegirnir verða því alltaf mikilvægari og mikilvægari. Því eru 2,5 milljarðar á ári bara langt í frá að vera nóg þar. Innviðaskuldin er orðin gríðarleg þar.

Þetta er stórt og mikið mál þannig að tíminn fer nú fljótt frá okkur hér. Mögulega kem ég bara í aðra ræðu til að ná að klára annað. Það sem ég hef líka rætt er að við þurfum að gera svolítið mikið til að forgangsröðun Alþingis og stjórnvalda gangi eftir. Ég held að við þurfum að setja meiri kraft í undirbúning framkvæmda þannig að hægt sé að fara fyrr í skipulagsmálin, fyrr í mat á umhverfisáhrifum og annað slíkt og til þess að bregðast við ef það kemur aukið fjármagn og við þurfum að bregðast við í efnahagsmálunum, eins og að framkvæma okkur út úr Covid eins og við gerðum, að framkvæmdirnar séu þá tilbúnar, að það sé þá búið að fara í umhverfismat og hönnun og að áætlanir standist. Ég tel gríðarlega mikilvægt að við ræðum það. Það eru margir vegir sem er hægt að nefna í því.

Svo langar mig að nefna annað sem ég hef svolitlar áhyggjur af og við þurfum að reyna að ná utan um í þessari vinnu. Hver er heildarmyndin? Þegar við vorum að fjármagna mest af samgönguáætlun þá var hægt að bera saman samgönguáætlun og fjármálaáætlun. Það er svolítið erfiðara núna því að hvernig ætlum við að fjármagna jarðgangaáætlun? Sú fjármögnun er ekki komin af stað. Það er samgöngusáttmálinn, það eru samvinnuverkefni, eins og vegur um Hornafjarðarós og brú yfir Ölfusá og fleira. Þannig að það eru svolítið mörg verkefni inni í áætluninni núna þar sem fjármögnunin er svolítið óljós. Við þurfum samt að halda áfram að þróa þær fjármögnunarleiðir og fleiri eins og samfélagsvegi, sem er nú þingmál hér fyrir þinginu, og svo mætti lengi telja.

Ég hlakka mikið til þessarar vinnu hér í þinginu og að við finnum saman lausnir til að byggja upp þessa mikilvægu grunninnviði og kannski er hægt að horfa til þeirrar vinnu sem við ræddum hér í gær (Forseti hringir.) í sérstakri umræðu um að breyta ríkiseignum í þessa innviði.