154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028.

315. mál
[16:41]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta innlegg og tek heils hugar undir með honum. Hafnabótasjóður og hafnirnar eru einmitt svo gott dæmi um það hvernig, þegar við höfum fjármagnið, hægt er að skapa innviði sem gefa svo margfalt til baka. Þetta eru innviðir sem sýna að þessi grunninnviðauppbyggingarjafna gengur svo vel upp. Ef við fjárfestum í þessum innviðum þá erum við að fjárfesta í frekari atvinnusköpun, frekari verðmætasköpun og það kviknar svo mikið líf í kringum þessar framkvæmdir.

Hæstv. ráðherra kom einmitt inn á það líka að það væru nefnilega nokkrir hafnarsjóðir sem væru ekki inni í þessu af því að þeir stæðu undir sér sjálfir. Það er svolítið það módel sem ég væri til í að sjá miklu víðar í samgöngukerfinu að gæti gengið upp. Þá er ég að horfa t.d. til fleiri hafna sem eru að fara að stunda inn- og útflutning og annað slíkt og þessa þjónustu, sem er þá líka ferðaþjónusta og við laxeldi og fleira, hvort ekki séu fjárfestingartækifæri þá fyrir aðila á markaði þar og hvort við gætum ekki séð þetta módel í auknum mæli í einstaka samgönguframkvæmdum hér innan höfuðborgarsvæðisins og mögulega eins og Sundabrautin er hugsuð. Ef við sjáum göng undir Setberg í Hafnarfirði og fleiri göng, göng undir Öskjuhlíð, sem var einu sinni rætt hér um, hér á höfuðborgarsvæðinu þá erum við alltaf með 20.000 bíla eða fleiri á dag í gegnum slík mannvirki sem gætu þá algerlega staðið undir sér sjálf án aðkomu ríkisins. Ég held að Færeyingarnir séu að ná þessu markmiði oft ef það eru 5.000 bílar á dag.