154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028.

315. mál
[16:59]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Það var tvennt sem mig langaði aðeins að koma inn á í ræðu hv. þingmanns. Það er bara rétt að brýrnar yfir Skjálfandafljót og Laxá eru barn síns tíma og þurfa auðvitað að komast hraðar á dagskrá. Ég nefndi það í inngangsræðu minni að núverandi rammi til framkvæmda fyrstu fimm árin er í anda fjármálaáætlunar. Ef við sjáum fyrir okkur að það skapast meira svigrúm þá er þetta auðvitað eitt af þeim verkefnum sem hljóta að koma til álita að reyna að flýta.

En svo vildi ég aðeins segja nokkur orð um annars vegar Öxi og PPP eða samvinnuleiðarverkefnin. Ég held að allir séu sammála um það, alveg sama hvað menn sögðu fyrir tíma Hvalfjarðarganga, að það gekk upp. Það módel var frábært. Af hverju ekki að nota það aftur á Íslandi? Það er rétt að þegar við fórum af stað vorum við kannski með heldur minni verkefni, eins og Hornafjarðarfljót og Öxi. Ég hef reyndar nýlega hitt aðila sem segja að Öxi sé alveg dæmigert verkefni til að fara í þær fjárfestingar. Á móti má segja að ef við horfum á forgangsröðun þeirra verkefna sem við þurfum að vera í þá myndi Öxi ekki komast á topp-fimm árin. En ef við ætlum að flýta því þá verðum við að geta horft á þessa leið og það er það sem við höfum verið að gera. Og ef það gengur eftir þá mun Öxi fara af stað. Þannig að ég treysti því að það geti gengið eftir og að sá aukni áhugi fjárfesta, ekki síst lífeyrissjóða og þeirra sjóða sem þeir hafa komið að, auki líkurnar á að það verði að veruleika.