154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028.

315. mál
[19:50]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi aðeins ræða við hv. þingmann um brúna yfir Jökulsá á Fjöllum. Hún er inni í áætluninni og allar aðrar brýr á þjóðvegi 1. Auðvitað voru það mikil vonbrigði 2014 þegar gaus í Holuhrauni, þegar gosið kom, því það var að koma að framkvæmdunum og svo fór Bárðarbunga að minna á sig og það gæti orðið mikið flóð í Jökulsá á Fjöllum. Hönnunarforsendur breyttust við það og mig minnir að 30.000–40.000 m³ flóð hafi verið svona viðmiðið eftir það, hvað brúin þyrfti að þola, færa hana upp á kletta og annað. En auðvitað hefði maður gjarnan viljað sjá hana koma miklu fyrr inn vegna þess að fyrir tenginguna milli Norður- og Austurlands er hún gríðarlega mikilvæg og það hefur kannski fengið allt of litla athygli almennt ef hún gefur sig með einhverjum hætti. Við vorum saman í kjördæmavikunni og þekkjum gömlu brúna, neðri, við Ásbyrgi, nú eru komnar fram miklar áhyggjur af henni líka. Þannig að þetta er stórt verkefni og mikilvægt að koma þessu á koppinn. 20 ára seinkun út af Holuhraunsgosinu er náttúrlega slæmur hlutur en ég vildi bara rétt koma þessu að.